149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd uppfærðan fríverslunarsamning milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands sem undirritaður var 25. júní 2018. EFTA-ríkin og Tyrkland gerðu fríverslunarsamninga á árinu 1992. Á árinu 2014 hófu löndin viðræður um uppfærslu fríverslunarsamningsins og var sá samningur undirritaður 25. júní 2018.

Í þingsályktunartillögunni er gerð grein fyrir helstu efnisþáttum fríverslunarsamningsins. Þar kemur fram að ný og breytt ákvæði hafa verið sameinuð ákvæðum úr núgildandi fríverslunarsamningi í einn texta. Helstu viðbætur og breytingar eru þær að formálsorðunum hefur verið breytt að mestu, þessi samningur nær til þjónustuviðskipta, viðskipta sjálfbærrar þróunar og lausnar deilumála sem núverandi fríverslunarsamningur nær ekki til en eru að jafnaði höfð inni í þeim samningum sem EFTA gerir í dag. Þá hefur viðaukinn um hugverkaréttindi verið uppfærður.

Útflutningur frá Íslandi til Tyrklands var 2,1 milljarður árið 2017, aðallega sjávarafurðir, vélar, húðir og skinn. Innflutningur frá Tyrklandi hefur sveiflast mikið á milli ára og byggist á því hvort byggt hafi verið skip fyrir Íslendinga það ár í Tyrklandi eða ekki. Hann hefur sveiflast frá 2,4 milljörðum árið 2010 í 24,4 milljarða árið 2017. Auk véla og samgöngutækja eru fluttar inn ýmsar vörur frá Tyrklandi, eins og framleiðsluvörur, hráefni og matvæli. Útflutningur á þjónustuviðskiptum til Tyrklands voru 434 milljónir árið 2017 og innflutningur 698 milljónir.

Mannréttindamál í Tyrklandi hafa verið nokkuð til umræðu. Rétt er að minna á að ýmsum ákvæðum er nú bætt við fríverslunarsamning við Tyrkland um mannréttindi, sjálfbæra þróun og umhverfismál sem eru ekki í núgildandi fríverslunarsamningi. Það er í samræmi við utanríkisstefnuna að fullgilda viðskiptasamninga við ríki þrátt fyrir að vera ósammála í ýmsum öðrum málum, líkt og mannréttindum. Í því sambandi má nefna t.d. fríverslunarsamninga EFTA við Kólumbíu og ríki Persaflóasamstarfsráðsins, þar með talið Sádi-Arabíu, og fríverslunarsamning Íslands og Kína, en Alþingi hefur samþykkt fullgildingu allra þessara fríverslunarsamninga. Framkvæmdin hefur verið hin sama í hinum EFTA-ríkjunum, þ.e. að gagnrýni á stöðu mannréttindamála hefur hingað til ekki í neinu tilviki komið í veg fyrir að fríverslunarsamningar séu fullgiltir. Litið er svo á að almennt verði gagnrýni vegna stöðu mannréttinda haldið uppi á vettvangi stofnana Sameinuðu þjóðanna fremur en á vettvangi EFTA. Að auki má færa rök fyrir því að frjáls viðskipti milli ríkja geti stuðlað að úrbótum í lýðræðis- og mannréttindamálum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.