149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hv. þingmaður velti upp málum sem mikilvægt er að velta ávallt upp, þ.e. stöðu mannréttindamála í heiminum og hvað við getum gert til að leggja lóð okkar á vogarskálarnar til að breyta málum til betri vegar.

Það er alveg rétt að auðvitað er búið að ræða þessi mál, m.a. í ríkisstjórn. Sömuleiðis hef ég rætt þetta, eins og hv. þingmaður þekkir, í hv. utanríkismálanefnd. Það verður náttúrlega að segjast eins og er að ef við myndum setja þá mælistiku að við ættum viðskipti við lönd, sem ég er ekki að segja að hv. þingmaður sé að vísa til, sem eru með mannréttindi á þeim stað sem við viljum og erum með hér heima hjá okkur, þá væri kannski ekki mikið eftir. Það væru ekki mörg lönd sem við gætum átt viðskipti við.

Eins og ég skil hv. þingmann snýst þetta um: Erum við að stíga rétt skref til að auka mannréttindi með því að auka fríverslun og samskipti þjóða, eða hefur það öfug áhrif? Ég held að almenna svarið sé án nokkurs vafa: Því meiri viðskipti, því meiri samskipti og því meiri líkur eru á því að við ýtum undir lýðræðisþróun og undir mannréttindi í viðkomandi löndum. Það er í rauninni það sem EFTA-ríkin og ESB-ríkin reyna, og það er svo sannarlega hugmyndin í Alþjóðaviðskiptastofnuninni að reyna það og almenna reglan er sú að auka viðskipti. Því að viðskipti eru miklu meira en bara það að menn séu að skiptast á vörum og þjónustu fyrir peninga. Það eru einnig samskipti fólks og fólk er að læra á ólíka menningarheima og reynir að skilja hlutina betur. Ef við trúum því að það fyrirkomulag sem við erum með, sem er það sem við leggjum áherslu á, mannréttindi, réttarríki, lýðræði, sé það besta sem ég svo sannarlega trúi, þá held ég að hægt sé að færa rök (Forseti hringir.) fyrir því og fjölmörg dæmi séu í sögunni um það að þegar fólk hefur fengið að kynnast slíku fyrirkomulagi vill það frekar hafa slíkt fyrirkomulag (Forseti hringir.) heima hjá sér.