149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:32]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Það verða alltaf ákveðin átök innra með manni þegar gera á fríverslunarsamninga við einræðisríki og við skulum ekki fara neitt sparlega með það að Tyrkland er de facto einræðisríki í dag. Ég er í aðra höndina fríverslunarsinni og lít á það sem ótvíræðan kost að geta stundað frekari viðskipti við öll heimsins lönd. Það er til mikils að vinna, bæði fyrir okkur og fyrir hin löndin. Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan er mikilvægt að eiga samskipti við fólk og eiga góð viðskipti við fólk til að þróa sambönd manna áfram. Ég er hins vegar líka stuðningsmaður réttarríkisins og það er því afskaplega óþægilegt þegar sú staða kemur upp að maður þarf að meta þetta og skoða.

Það ber við í allri umræðu um fríverslunarsamninga af þessu tagi að það er ákveðin trú á að aukin viðskipti leiði af sér aukið frelsi og aukið lýðræði, þ.e. að frjálsir markaðir skapi frjálst fólk. Hið sanna er að það er aðeins frjálst fólk sem getur skapað frjálsa markaði. Það er einfaldlega þannig að forsendur þess að geta átt frjáls viðskipti við annað fólk er að þú sért ekki fyrir fram undir ákveðinni ánauð.

Mér er ekki kunnugt um neinar sjálfstæðar rannsóknir sem hafa sýnt ótvírætt fram á að aukin viðskipti hafi leitt af sér meira frelsi og færri mannréttindabrot. Því hefur verið haldið fram mjög lengi en sönnunargögn eru lítil eða í besta falli í bland við almennari fullyrðingar um samfélagslega þróun og oftar en ekki tengdar lýðræðisþróun, landréttar- og landbúnaðarbreytingum, iðnaðarstefnu og fleiri þáttum.

Mér er aftur á móti kunnugt um rannsóknir sem hafa sýnt mjög ótvírætt að aðgerðir til að styðja konur á vinnumarkaði, styrking réttarríkisins og lýðræðislegt aðhald hafi leitt af sér áberandi meiri viðskipti. Þetta höfum við nýlega rætt t.d. á grundvelli þingmannanefndar EFTA, þ.e. að svo virðist vera sem frjálst fólk skapi frjálsa markaði en ekki öfugt. Því má segja að fríverslunarsamningar eigi að vissu leyti að vera skilyrtir við góðan árangur í þróun og mannréttindum. Það má túlka þá sem ákveðin verðlaun fyrir að færast nær því siðferði í framkvæmd beitingar ríkisvalds sem alþjóðasamfélagið gerði kröfu um eftir seinni heimsstyrjöld. Þetta á að haldast í hendur.

Þess vegna stendur í formála hvers og eins einasta fríverslunarsamnings sem við gerum á grundvelli EFTA og tvíhliða að löndin árétti skuldbindingar sínar við lýðræði og réttarreglur, mannréttindi og mannfrelsi. Þetta er árétting, ekki viðurkenning. Þetta er forsenda, ekki viljayfirlýsing. Þetta er grundvallaratriði, ekki aukaatriði. Það er alltaf ástæða til að spyrja ef við getum ekki gengið að því vísu að löndin sem við erum að gera samkomulag við muni standa við það mikilvæga atriði í formála allra fríverslunarsamninga hvort við getum þá treyst því að þau muni efna öll hin atriðin. Ég er ekki viss um að svo sé. Við vitum að þegar stórar breytingar verða á pólitísku fyrirkomulagi landa fylgir því oft mikið markaðsrask. Sem dæmi er Tyrkland eitt þeirra ríkja sem stundar töluverða ritskoðun á internetinu og þar af leiðandi verðum við að spyrja þegar við tölum um að bæta við góðum orðum um þjónustuviðskipti í fríverslunarsamning: Getur verið að vefþjónusta eða söluframendi fyrirtækja sem reka vefsíður á Íslandi sem veita einhvers konar þjónustu úti í heimi verði ritskoðaður í þágu pólitískra markmiða í Tyrklandi?

Það er vissulega rétt að færst hefur í aukana undanfarin ár að slíkt sé rætt og sérstaklega hjá Evrópusambandinu, en það hefur ekki enn þá verið vilji fyrir því á grundvelli EFTA að setja inn skýr fyrirmæli um að það eigi að vera gagnkvæmt upplýsingafrelsi og flæði upplýsinga milli samningsríkja. Fyrir vikið getum ekki treyst því að ekki verði stunduð ritskoðun á íslenskum vefþjónustum af hvaða ástæðu sem er, sem kæmi niður á viðskiptafrelsi þeirra sem myndu vilja njóta góðs af svona samningum.

Ég ætla ekki að hanga mjög lengi yfir þessu núna vegna þess að mér finnst þetta vera eitthvað sem á erindi í almennari umræðu í utanríkismálanefnd og jafnvel í þinginu um það hvar við drögum línuna. En ég ætla samt að segja að ég var nýkominn frá Tyrklandi 15. júlí 2016 þegar byltingartilraunin var gerð. Það munaði tveimur tímum að ég væri í Istanbúl þegar loftárásirnar hófust. Ég hef, eins og heimsbyggðin öll, horft á eftir tugum þúsunda manna í fangelsi og margir hafa hreinlega horfið sporlaust, oft fyrir engar sakir aðrar en að vera frjálslyndir lýðræðissinnar sem þorðu að tala gegn Recep Tayyip Erdogan og stjórn hans. Fyrir utan það, eins og hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson kom inn áðan, er enn óleyst vandamál meðferð Tyrkja á Kúrdum, sem hefur m.a. lýst sér í falli eins Íslendings í stríðinu í Sýrlandi.

Það er ódýrt og auðvelt að standa með tjáningarfrelsi og réttarríkinu og mannréttindum almennt þegar vel árar. Það er miklu erfiðara að standa með mannréttindum þegar það kostar mann eitthvað og vissulega myndi það kosta okkur eitthvað að uppfæra ekki þennan samning. Við fáum ekki útvíkkuð þjónustuviðskipti og þar fram eftir götunum og það veikir kannski tækifæri okkar til að stunda viðskipti á tyrkneskum markaði.

Það er sjálfsagt og eðlilegt og mikilvægt að við höldum áfram að þróa fríverslunarnet og fríverslun okkar sem þjóð og ég mun styðja áfram alla vinnu í þá átt. Það er hreinlega mikilvægt og ekki síst vegna veru minnar í þingmannanefnd EFTA. En ég verð að sjálfsögðu að beita siðferðisviðmiðum mínum þegar við erum að vinna með samninga sem þessa í þinginu og meta hverju sinni hvort tímabært sé að verðlauna hegðun af því tagi sem við höfum séð. Ég legg því til að þegar við tökum þá umræðu í utanríkismálanefnd á næstunni verði m.a. rætt hvar línan á að vera dregin gagnvart því að stuðla að viðskiptasamningum og auknum viðskiptum við einræðisherra og aðra sem brjóta gegn mannréttindum í stórum stíl, til þess að við höfum einhvers konar skilaboð sem hægt er að senda til hæstv. utanríkisráðherra um það hvar við viljum vera í þeim málum. Ég held að það sé til mikils að vinna með aukinni fríverslun, en við verðum að setja það í jafnvægi við önnur sjónarmið.