149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[11:43]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru góðar spurningar sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson ber upp. Eftir því sem ég best veit er ekkert ákvæði sem býr til gerðardóm gagnvart brotum á því sem kalla mætti mjúkvaldsfullyrðingar, eða á ensku, með leyfi forseta, „soft power“-fullyrðingar, sem eru í upphafi svona samninga vegna þess að sú hugsun er mönnum kannski ekki ofarlega í huga og jafnvel er ekki mikill vilji fyrir því hjá sumum ríkjum. Það hefur t.d. verið talað um að sum ríki vilji hreinlega ekki blanda viðskiptum saman við mannréttindamál, að það eigi að vera einhvern veginn hvor sinn hluturinn. Ég myndi halda að það ætti í það minnsta að vera einhvers konar ákvæði sem heimilar ríkjum, samningsaðilum, að setja tímabundið á pásu samninga af þessu tagi þegar brot eru framin gagnvart mannréttindum og öðru. Svo mætti náttúrlega vera einhvers konar skilyrði fyrir því hvernig ætti að gangsetja slíkt, hversu lengi slíkt á að vara án þess að samningurinn fari jafnvel sjálfvirkt í gang aftur eða eitthvað álíka.

En með því að gera það er til virkt úrræði sem ekki er í samningum í dag, alla vega ekki í neinum samningum sem ég veit um. Ég hef svo sem ekki lesið óhemjumarga fríverslunarsamninga, en einhverja þó, ég hef reyndar sérstakt dálæti á því. Það myndi breyta svolítið samtalinu að hafa einhvers konar virkt úrræði, vegna þess að eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan er mikilvægt að ræða þetta. En það er ekki alveg sama á hvaða grundvelli það er gert. Ef maður ræðir um þetta (Forseti hringir.) með einhvers konar úrræði í höndunum er hægt að (Forseti hringir.) tala mjúklega en vera alltaf með stóran vönd.