149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

opinber stuðningur við vísindarannsóknir.

411. mál
[12:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Hér verður mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 3/2003, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Frumvarpið er samið í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Tilefni og tilgangur frumvarpsins er að styrkja stefnumarkandi hlutverk Innviðasjóðs og aðlaga reglur Rannsóknasjóðs alþjóðlegu umhverfi á þann hátt að það sé vísindarannsóknum á Íslandi til framdráttar.

Með frumvarpinu er lagt til að stjórn Innviðasjóðs verði aðskilin frá stjórn Rannsóknasjóðs og að hún verði skipuð sameiginlega af vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs, að formanni undanskildum sem skipaður verði af ráðherra. Einnig að stjórn Rannsóknasjóðs fái heimild til þess að taka þátt í samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaráætlana í samstarfi við erlenda rannsóknarsjóði. Með breytingum árið 2012 á lögum nr. 3/2003, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, var nafni Tækjasjóðs breytt í Innviðasjóð. Samhliða nafnbreytingunni var hlutverk sjóðsins aukið frá því að fjármagna kaup á tækjum til rannsókna í að fjármagna rannsóknarinnviði í víðari skilningi. Rannsóknarinnviðir eru auk tækjabúnaðar ýmis sérhæfð rannsóknaraðstaða, gagnagrunnar, skjalasöfn og rafrænir innviðir.

Virðulegur forseti. Ein af aðgerðum í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017–2019 er gerð vegvísis um rannsóknarinnviði en hann mun verða stefnumótandi fyrir uppbyggingu rannsóknarinnviða hér á landi og aukna þátttöku íslenskra stofnana í alþjóðlegu rannsóknarinnviðasamstarfi. Niðurstöður aðgerðar 1 úr Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2017–2019 munu birtast í vegvísinum en í þeirri aðgerð voru skilgreindar í opnu samráði þær samfélagslegu áskoranir sem brýnast er að Ísland geti tekist á við á næstu áratugum.

Innviðasjóður mun gegna lykilhlutverki í framkvæmd stefnunnar og nýtast í þeirri forgangsröðun sem tengist hinum áðurnefndu samfélagslegu áskorunum. Með aukinni áherslu stjórnvalda á rannsóknarinnviði er við hæfi fyrir sjóðinn að sett verði sjálfstæð stjórn en hingað til hefur stjórn Rannsóknasjóðs farið með stjórn Innviðasjóðs. Sjálfstæð stjórn Innviðasjóðs mun taka virkan þátt í stefnumótun í málaflokknum og þar sem rannsóknarinnviðir þjóna bæði vísindum og nýsköpun er gert ráð fyrir að vísindanefnd og tækninefnd Vísinda- og tækniráðs tilnefni í stjórnina. Ráðherra skipar svo formann til að tenging við stefnumótandi stjórnvöld sé til staðar.

Lagabreytingin felur til viðbótar í sér framkvæmd aðgerðar 1.9 í Stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs 2014–2016. Breytingin felur í sér heimild Rannsóknasjóðs til að samþykkja faglegt mat alþjóðlegra fagráða á umsóknum svo sjóðurinn geti ráðstafað fjármunum í samfjármögnun rannsóknaráætlana í samstarfi við erlenda samkeppnissjóði. Slík samfjármögnun felur í sér að rannsóknarsjóðir frá mismunandi löndum koma sér saman um áætlanir með áherslu á sérstök þemu eða svið og fagráð til að meta umsóknir er skipað sameiginlega.

Mikil tækifæri geta falist í þessu fyrir íslenska vísindamenn í þessum áætlunum en það sem hefur staðið í vegi fyrir þátttöku Rannsóknasjóðs er að stjórninni hefur ekki verið heimilt að samþykkja gæðamat framkvæmt af öðrum en fagráðum sjóðsins samkvæmt lögum nr. 3/2003. Í samstarfi alþjóðlegra rannsóknarsjóða er skipað alþjóðlegt fagráð og nauðsynlegt er að Rannsóknasjóður geti farið að þeim reglum. Mikilvægt er að Rannsóknasjóður geti gripið tækifærið bjóðist honum að taka þátt í rannsóknaráætlunum þar sem fyrirséð er að með þátttöku íslenskra rannsóknarstofnana muni t.d. opnast ný tækifæri í rannsóknum eða að þátttaka muni efla viðkomandi svið á Íslandi með afgerandi hætti.

Virðulegur forseti. Nýsköpun og hagnýting hugvits er forsenda fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og styrkrar samkeppnisstöðu þjóða. Ég lít björtum augum til framtíðar vitandi af þeim öfluga mannauði í vísinda- og rannsóknarstarfi sem við eigum. Árangurinn talar sínu máli, t.d. í alþjóðlegum samkeppnissjóðum. Það er auðvitað mjög fróðlegt að vita að í alþjóðlegum samkeppnissjóðum Evrópusambandsins þar sem um er að ræða fjármuni í kringum 80 milljarða hafa Íslendingar og íslenskir vísindamenn náð um 8 milljörðum þar af, um 10% af þessum sjóðum. Er þessi árangur mjög eftirtektarverður og árangurshlutfallið sérstaklega glæsilegt.

Virðulegur forseti. Við viljum halda áfram að skapa þekkingarsamfélag þar sem rannsóknir og nýsköpun skila sér út í samfélagið með betri menntun, betri heilsu og betri efnahag. Þannig gerum við okkur gildandi í tæknibyltingu framtíðarinnar og höldum Íslandi í fremstu röð. Þetta frumvarp er liður í þeirri vegferð. Vænti ég þess að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allsherjar- og menntamálanefndar.