149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

Bankasýsla ríkisins.

412. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í þessum efnum erum við hv. þm. Þorsteinn Víglundsson sammála. Ég er einn þeirra sem hafa talað fyrir því að ekki sé þörf fyrir að reka sérstaka stofnun sem heitir Bankasýsla ríkisins, það sé hægt að koma hlutunum fyrir með öðrum og kannski skynsamlegri hætti. Það eru þau sjónarmið sem menn verða auðvitað að taka tillit til sem eru armslengdarsjónarmið þegar kemur að meðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum.

Það vill svo til að hæstv. fjármálaráðherra núverandi, 2014 eða 2015, lagði fram tillögu fyrir þingið um að leggja niður stofnunina. Alþingi hafnaði því og þáverandi efnahags- og viðskiptanefnd var þar á meðal. Að því leyti hefur Alþingi sagt sína skoðun á því og meirihlutaviljinn er þessi, a.m.k. var, það er auðvitað búið að kjósa tvisvar í millitíðinni. En Alþingi hefur lýst þeirri skoðun sinni að það sé rétt þó að það séu deildar skoðanir.

Ég deili skoðunum hv. þingmanns á því að það séu ekki sérstök rök fyrir þessari stofnun en meiri hluti Alþingis, þangað til annað kemur í ljós, hefur ákveðið að þessi stofnun skuli starfa. Meginrökin eru þau sem ég rakti hér áðan, að það séu ákveðin armslengdarsjónarmið sem skuli gilda, og þau eru auðvitað góð og gild.