149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda.

136. mál
[14:56]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér örstutt til að lýsa yfir eindregnum stuðningi við markmið þessa frumvarps, frumvarps til laga um endurgreiðslur til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar og annarra framkvæmda. Flutningsmenn hafa nú þegar farið vel yfir markmið frumvarpsins og mikilvægi þess einmitt að horfa á markmiðið og útiloka engar leiðir í útfærslunni. Góð aðstaða og mannvirki almannaheillasamtaka hafa sýnt sig að geta breytt miklu á svo margan hátt í samfélögum, t.d. í íþróttaiðkun, og nægir að nefna samstarf íþróttahreyfingarinnar og sveitarfélaga um land allt fyrir tæpum 20 árum til að koma upp sparkvöllum. Það var engin smábylting sem við sáum þar. Margt mikilvægt hefur komið fram í umræðunni nú þegar og m.a. hefur verið bent á að frumvarpið sé í fullu samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem mikil áhersla er lögð á þýðingu almannaheillasamtaka á mörgum sviðum í samfélaginu; í forvörnum, í lýðheilsu, í ræktun lýðs og lands eins og við getum sagt.

Síðan hefur aðeins verið komið inn á þörfina fyrir t.d. íþróttamannvirki. Ég veit ekki hvort til er nein samantekt á því en víða þar sem ég fer um er einmitt komið að uppbyggingu. Íþróttamannvirki eru sprungin, eru þannig að elstu börnin, þau sem er á framhaldsskólaaldri, fá tíma í íþróttahúsunum undir miðnætti. Kannski gætum við breytt því frekar en að breyta klukkunni. Og þörf er fyrir alls konar íþróttamannvirki, t.d. velli utan húss, hús og svo hefur verið komið inn á björgunarsveitirnar og fleira í því sambandi.

Eins er mikilvægt að horfa á markmiðið en ekki aðferðina við að ívilna þeim félögum sem vilja standa að þessu fjölbreytta starfi. Eru það endurgreiðslur? Er það beintengt virðisaukaskattinum eða eru einhverjar aðrar ívilnanir heppilegri? Einnig hefur verið bent á að margar útfærslur hafa leitt til þess að í rauninni hafa tekjur ríkissjóðs aukist en ekki tapast við að vinna svona mál vel.

Síðan langar mig að koma aðeins inn á að fyrir u.þ.b. ári átti ég samtal við hæstv. ferðamálaráðherra um afmörkun á almannaheillasamtökum. Þar hefur verið unnin töluverð vinna í gegnum árin til að skoða hvort sérstaka afmörkun þurfi í lögum á því hvað falli undir almannaheillasamtök. Það hefur reynst nokkuð snúið og það er örugglega eitt af því sem þarf að fara yfir við afgreiðslu frumvarpsins. Út úr þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram hafa m.a. komið ákveðnar ívilnandi aðgerðir til þessara félaga, m.a. það að styrkir sem fyrirtækjum er heimilt að verja til slíkra samtaka voru hækkaðir úr 0,5% í 0,75% og eru þá undanþegnir tekjuskattsstofni þeirra fyrirtækja. Eins hefur erfðafjárskattur af gjöfum til slíkra samtaka verið felldur niður. Það er mikilvægt að skoða einmitt hvernig var farið að því að afmarka þau samtök sem hér um ræðir. Ég hvet hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að horfa vítt og á heildarsamhengið í þessu. Það getur vel verið að heppilegt sé, eins og hér hefur verið nefnt, að byrja þröngt með þann möguleika að víkka frekar út skilgreininguna ef vel tekst til við útfærsluna.

Eins og áður sagði lýsi ég eindregnum stuðningi við markmið frumvarpsins, sem er að styðja við mannvirkjagerð og aðrar framkvæmdir félagasamtaka til almannaheilla og hvetja til þess að þau efli starfsemi sína eða bæti aðstöðu sína. Undanþegin gildissviði laga þessara er mannvirkjagerð eða aðrar framkvæmdir þar sem lögbundin starfsemi hins opinbera mun fara fram. Þarna kemur aftur ákveðin flækja, eins og einnig hefur verið komið inn á í umræðunni, og legg ég áherslu á að í meðferð þingsins á málinu verði einmitt horft á markmiðið en ekki hugsanlegar flækjur, reynt að greiða úr þeim eins og mögulegt er.