149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[15:59]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér í pontu til að lýsa yfir ánægju minni með að frumvarpið skuli vera komið fram á þingi. Ég vil líka nota tækifærið til að þakka sérstaklega flutningsmanni fyrir að hafa endurflutt málið. En ég vil ekki síður þakka framsögumanni málsins á síðasta þingi, þegar málið var síðast til umræðu, fyrir þrautseigjuna. Ég held að málið sé komið í þann búning að okkur sé ekkert að vanbúnaði að klára það fljótt og vel. Ég held að ekki þurfi að fjölyrða almennt um efnið, því fylgir bæði ítarleg greinargerð og fyrir liggja ítarlegar umræður um málið allt.

Ég vil þó benda á eitt: Ég held að það sé ekki bara mikilvægt að lækka kosningaaldur vegna þess hve mikilvægt er að ungt fólk taki þátt í stjórnmálalífi og vegna þess að 16 ára einstaklingur er orðinn nógu vel þroskaður til þess, og því rétt að gera þetta í áföngum, heldur ekki síður vegna þess að þjóðin er alltaf að eldast. Þeim sem eldri eru fjölgar á kostnað þeirra sem yngri eru. Þess vegna er mikilvægt að við bætum í þann enda svo að við lendum ekki í vanda þess vegna. Að sjálfsögðu á að hlusta á raddir hinna eldri og vísari, en kerfið má ekki vera þannig að hinir eldri ákveði alltaf allt fyrir hina yngri sem eiga að taka við.

Nú er hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé farinn að átta sig á því að það er engin (Forseti hringir.) spurning hérna, heldur misnotaði ég aðstöðu mína til að koma þessum almennu sjónarmiðum á framfæri.