149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

kosningar til sveitarstjórna.

356. mál
[16:25]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Herra forseti. Mig langar að leggja orð í belg í þessari umræðu um að færa kosningarrétt niður til 16 ára aldurs. Það er rétt að búið var að ræða þetta mjög mikið en ég tel að biðin á afgreiðslunni hafi skilað góðu af sér. Akkúrat núna er búið að gera breytingar á því sem Samband íslenskra sveitarfélaga gerði mestar athugasemdir við, að sjálfræðisaldur og fjárræðisaldur færu ekki saman við kjörgengi. Það hefur verið tekið tillit til þess, sem er mjög gott.

En mig langar líka til að leggja orð í belg hvað varðar tal um að einhverjir horfi á ungt fólk og telji að það hafi ekki vit á því sem verið er að fjalla um. Í sveitarstjórnum er verið að fjalla um nærumhverfið. Á Suðurlandi er öflugt ungmennastarf, alla vega á því svæði sem ég þekki best til, og án efa er það víðar um landið. Það er mjög gaman. Ungmennaráð Suðurlands er mjög öflugt en þar koma ungmennaráð sveitarfélaganna saman. Það er mjög gaman að segja frá því að þau eru með tveggja daga ráðstefnu á Selfossi í næstu viku þar sem okkur sveitarstjórnar- og alþingismönnum er boðið til þátttöku seinni daginn. Þau voru líka með þing í haust þar sem til umfjöllunar voru ákveðin áherslumál sem þau voru að fjalla um. Það voru t.d. atvinnumál, loftslagsmál og sorpflokkun, sem þau ræddu mjög ítarlega, og samgöngumál. Eitt þeirra hjartans mála fjallaði síðan um jafningjafræðslu og það sem beinist að forvörnum gegn fíkniefnum. Það mál ratar inn sem áhersluatriði í sóknaráætlun Suðurlands fyrir árið 2019. Settar voru 6 milljónir í að vinna að þessu málefni þeirra, sem snertir náttúrlega alla íbúa en er líka áherslumál þeirra.

Varðandi fræðsluna og annað slíkt hefur Samband íslenskra framhaldsskólanema undanfarin ár — og kannski er það það jákvæða sem tíðar kosningar hafa fært okkur — tekið þátt í verkefninu #égkýs með ríkinu en þar hafa skuggakosningar verið frá forsetakosningunum og síðan bæði í alþingis- og sveitarstjórnarkosningum. Þar hefur ungt fólk fengið að æfa sig í þessari lýðræðisþátttöku. Þau eru, eins og komið hefur fram, að kjósa í leikskólum og annars staðar og hafa í raun áttað sig á því að við erum alltaf að taka ákvarðanir af þessu tagi. Við erum alltaf að kjósa, við erum að stunda lýðræði, þó að við gerum okkur ekki alltaf grein fyrir því, á meðan við erum að velja, að við séum að viðhafa lýðræðislegar kosningar, lýðræðislegt val.

Ég tel þær umræður sem hafa verið um þessi mál síðustu ár hafa verið af hinu góða. Nú erum við komin með plagg, með frumvarp, sem er vel þroskað og vel ígrundað. Til hamingju með það.