149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[16:55]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgott andsvar. Það er einmitt mjög áhugavert þegar við horfum á mjólkuriðnaðinn af hverju við viðhöfum slíkt fyrirkomulag. Eins og hv. þingmaður benti á gerum við fyrirtæki markaðsráðandi með opinberri verðstýringu. Ég hygg að Mjólkursamsalan sé með vel yfir 95% af markaðshlutdeild, sennilega nokkuð nærri 100% ef út í það er farið. En af hverju gerum við því fyrirtæki þá að selja helstu afurð sína, nýmjólkina, eða hvort sem er nýmjólk eða léttmjólk, með tapi og jafnvel umtalsverðu tapi, á talsvert lægra verði, eins og hv. þingmaður bendir á, en kaupmenn treysta sér til að selja vatn á flöskum á og það í þeirri vöru þar sem samkeppnisstaða þeirra gagnvart innflutningi væri sennilega hvað sterkust? Ég held að við getum öll verið sammála um að innflutningur á ferskvöru á tiltölulega lágu kílóverði, ef hægt er að orða það þannig, er ekkert sérstaklega raunhæfur og væri afar ólíklegt, jafnvel í tiltölulega óheftu samkeppnisumhverfi, að við sæjum verulegan innflutning á ferskmjólk hingað til lands. En á sama tíma ætlum við fyrirtækinu að sækja alla framlegð sína í ostum og feitari vörunni, sem er þó á endanum hvað viðkvæmust fyrir samkeppni. Mér finnst þetta óskynsamlegt fyrirkomulag í grunninn. Ég held að byrja ætti á því að endurskoða það: Er þetta tilgangurinn? Tilgangurinn virðist vera að reyna að hámarka mjólkurframleiðslu á einhvern hátt en það er heldur ekki skynsamlegt til lengdar að framleiða meira en jafnvægisástand á markaði gefur tilefni til. (Forseti hringir.) Í frjálsri verðlagningu er ekki vafaatriði að því yrði talsvert öðruvísi skipt.