149. löggjafarþing — 57. fundur,  24. jan. 2019.

búvörulög.

295. mál
[17:16]
Horfa

Elvar Eyvindsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir framlagningu frumvarpsins sem ég tel mjög tímabært og gott að fái meðferð og dýpri umræðu í nefnd. Ég held að það sé tímabært í ljósi aðstæðna á markaðnum.

Ég get vel tekið undir að best væri að þurfa ekki að gera þetta en aðstæðurnar eru þannig. Í ljósi umræðunnar áðan verður maður eiginlega að segja eins og er að það er raunverulega frjáls samkeppni í afurðamálum kjötgeirans. Hún virðist skila því að möguleikar afurðastöðvanna til að bregðast við samkeppninni eru ekki miklir. Afurðastöðvarnar virðast vera á brauðfótum. Litlir möguleikar hafa verið til hagnaðar með þeirri aðferð og þær eru það veikburða að þær eiga margar jafnvel ekki langt eftir.

Áðan var talað um að bændur hljóti að hagnast á því að afurðastöðvar haldi áfram að vera í samkeppni. En jafnframt er talað um, og það viðurkenna allir greinilega, sem er vel, að mikil fákeppni ríki á markaðnum. Maður hefur fylgst með því áratugum saman að risastórir aðilar í smásölu, t.d. á móti bændum, sem eru mjög margir of litlir og veikburða, leika sér eins og köttur að mús að afurðastöðvunum. Það er samið við eina í dag um mikið magn og á morgun er sá samningur úti og önnur afurðastöð komin inn vegna þess að hún bauð lægra verð. Þannig hefur sá markaður verið.

Ég sé ekki að það geti gengið. Allt tal um að bændur græði eða að afurðastöðvar séu að þjösnast á bændum er vafasamt. En ég get vel tekið undir og held að við eigum alveg hiklaust að hjálpa til með að liðka fyrir þeim bændum sem vilja vinna afurðir heima og jafnvel reka sín litlu sláturhús. Það held ég að geti líka virkað mjög vel með í kerfinu.

Eins og fram kom hjá flutningsmanni getur ekki verið neitt óeðlilegt við það, þar sem við stöndum frammi fyrir mikilli samkeppni í dag frá innflutningi og hann fer jafnvel vaxandi, að við stöndum saman á móti, tökum höndum saman til að geta brugðist við því. Annars held ég að þetta mál molni allt niður.

Nákvæmlega hvernig á að gera það? Það er verkefni þingsins að ræða sig niður á það. Það er greinilegt af umræðunni að hægt er að finna flöt. Það er góður vilji til þess að landbúnaðurinn gangi upp og þess vegna hlýtur að vera hægt að finna flöt á því.

Ég nefndi í umræðunni áðan að mögulega mætti taka kerfi mjólkuriðnaðarins sem dæmi líka, þ.e. þar er söfnun og frumúrvinnsla á einni hendi vegna þess að það hefur sýnt sig að mjög dýrt er að margir séu að safna mjólk. Það sama á við í kjötinu. Það er dýrt að margir séu í þeim bransa. En það getur vel verið að gera eigi stórum fyrirtækjum skylt að selja minni fyrirtækjum á lágmarksverði til frekari úrvinnslu þannig að hægt sé að ýta undir samkeppni og vöruþróun og halda lífi í minni fyrirtækjum, eins og er að gerast í mjólkinni. Ég held að það sé hið besta mál.

Ég styð eindregið að frumvarpið nái fram að ganga. Ég vona að því verði vel tekið og þróað til góðs vegar.