149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

viðbótarframlag til SÁÁ.

[13:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og kemur fram í máli hv. þingmanns var það svo að hv. fjárlaganefnd gerði sérstaka tillögu um viðbótarframlag til SÁÁ við lokaafgreiðslu fjárlaga sem meiri hluti Alþingis samþykkti. Í texta fjárlaganefndar við þá upphæð var sérstaklega til þess tekið að það snerist um að leggja til fjármagn til göngudeildar, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Í textanum hefur sennilega verið með almennum orðum talað um göngudeildarþjónustu á vegum SÁÁ og þar var byggt á mati samtakanna á því hvað kostaði mikið að reka göngudeildarþjónustu, bæði í Reykjavík og á Akureyri. Fjárlaganefnd bætti í raun og veru um betur frá þeirri tölu sem SÁÁ hafði lagt til varðandi göngudeildarþjónustu og bætti 50 milljónum við í meðförum nefndarinnar. Það er um það að segja að eini textinn sem til er til að vísa í er að í afgreiðslu þingsins og í texta fjárlaganefndar stendur að þetta snúist um göngudeildarþjónustu á vegum SÁÁ og aðra þjónustu í samræmi við stefnumótun ráðuneytisins. Þannig að samkvæmt þeim ferlum og þeim reglum og lögum sem við vinnum eftir eru næstu skref hjá Sjúkratryggingum Íslands að gera samninga við SÁÁ um þessa þjónustu.