149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

skýrsla um áhrif hvala á lífríki sjávar.

[14:07]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hefur víða verið til umfjöllunar síðustu vikur, fyrst og fremst vegna alvarlegra athugasemda um meðferð upplýsinga um áhrif hvala á lífríki sjávar og hvort skýrslan svari raunverulega þeim spurningum sem vonast var til að hún gerði, einkum með tilliti til þeirra fyrirvara sem gerðir voru í fyrri skýrslu stofnunarinnar um sama málefni þar sem talið var æskilegt að við endurskoðun yrði sérstaklega litið til þátta eins og áhrifa á virði umhverfisgæða, áhrifa sem veiðarnar kynnu að hafa á afstöðu fólks í öðrum löndum til Íslands og ímyndar landsins út á við sem og hugsanlegra áhrifa á ferðamenn.

Alvarlegar athugasemdir hafa víðs vegar komið fram, m.a. frá stjórn Vistfræðifélags Íslands, þar sem sagt er að höfundar skýrslunnar byggi á röngum eða í besta falli ofur einfölduðum forsendum við mat á áhrifum á hvala- og fiskstofna, að skýrslan sniðgangi nýjustu þekkingu á sviði sjávarvistfræði og byggi á mjög einfaldaðri mynd af vistfræði, vistkerfum og fæðukeðjum hafsins og sömuleiðis að skýrslan sé ekki ritrýnd af óháðum vistfræðingum og reyndar ekki af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar heldur.

Þess má geta að vikmörkin í þeim hluta rannsóknarinnar sem helst er vísað í eru töluverð, eða allt frá 0% og upp í 50%. Margt fleira í skýrslunni vekur spurningar. Mig langar að byrja á að spyrja hæstv. ráðherra: Telur ráðherra að þurft hefði að skoða betur með beinni hætti þjóðhagsleg áhrif annarrar nýtingar hvals, svo sem hvalaskoðun, til samanburðar við þjóðhagsleg áhrif hvalveiðanna? Hefði verið eðlilegt að eiga samtal við forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja sem kannast ekki við að slíkt samtal hafi átt sér stað? Er hæstv. sjávarútvegsráðherra sammála því, sem ýjað er að í skýrslu Hagfræðistofnunar, að líta eigi á umhverfisverndarsamtök, a.m.k. sum þeirra, sem hryðjuverkasamtök? Telur ráðherra, miðað við þá alvarlegu gagnrýni sem komið hefur úr fræðasamfélaginu og víðar, að hægt sé að byggja ákvarðanir um hvalveiðar á niðurstöðum Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands?