149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[17:06]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hún kom inn á margt. Það er alveg rétt að það hafa verið deildar meiningar um krónuna og evruna og hvort henti okkur betur og sitt sýnist hverjum í því. Kannski verður þetta eitt af því sem verður tekið til umfjöllunar í nefndinni. Ég ætla ekki að segja neitt um að það sé ein af forsendunum. Væntanlega ætti þetta mál að fá umfjöllun eins og annað þó að ég hafi mína skoðun á því eins og hv. þingmaður þekkir.

Ég er alveg sammála henni um vandað ferli og það hefur komið ítrekað fram að það er það sem við þurfum að gera. Við brenndum okkur auðvitað svo illilega á einkavæðingum hinum fyrri, þ.e. þegar við höfum selt bankana okkar, að við þurfum að hafa fólkið með okkur og sýna fram á að þetta sé gagnsætt og opið ferli þannig að þessi umræða fari ekki í gang aftur, að það sé verið að selja þetta í einhverri vinavæðingu. Ég held að það sé mjög mikilvægt. Ég tel að við ættum að fá erlendan aðila að. Ég held að það sé betra.

Varðandi það hvort ferlið hefjist á þessu kjörtímabili eða ekki þá er þetta auðvitað í stjórnarsáttmálanum, eins og hv. þingmaður kom inn á, sala á bankakerfinu að einhverju leyti. Ég ætla alls ekkert að útiloka að það geti gerst á þessu kjörtímabili. Ég tel að við þurfum bara að horfa á aðstæður á hverjum tíma. Núna var tekin sú ákvörðun að hefja ekki ferlið á þessu ári vegna þess að við teljum aðstæður ekki nógu góðar. Við þurfum líka að ræða þetta meira. Við þurfum að ræða þetta til að byggja upp traust sem kallað er mjög mikið eftir og kemur fram í þeirri skoðanakönnun sem hér er birt.

Varðandi bankaskattinn. Ég hef ekki verið sérstaklega spennt fyrir lækkun. Ég hefði viljað láta gera einhvers konar könnun á því hvort lækkun bankaskatts hafi skilað sér til neytenda, hvort það megi beinlínis rekja það beint til hennar. Það er ekkert gefið í því. (Forseti hringir.) En á móti kemur að þeir sem þykjast betur til þekkja segja að það sé íþyngjandi að selja banka með svo hátt eignarhlutfall (Forseti hringir.) og svo háan bankaskatt.