149. löggjafarþing — 58. fundur,  29. jan. 2019.

hvítbók um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið. Munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að láta þess getið hér undir lok umræðunnar að við höfum valið þessa leið til að undirbyggja málefnalega umræðu um framtíð fjármálakerfisins á Íslandi, að láta taka saman sérstaka skýrslu til þingsins sem hefur þetta heiti, hvítbók. Mig langar að byrja á því að segja að þó að þetta sé alls ekki einsdæmi þá hefur mér að jafnaði þótt það takast ágætlega að opna umræðuna og leggja góðan grundvöll fyrir skoðanaskipti með því að byggja á samantekt á gögnum og jafnvel ekki bara gögnum og upptalningu á einhverri lagaþróun heldur sjónarmiðum varðandi þá möguleika sem stjórnvöld hafa í stöðunni. Mér finnst að jafnaði hafa tekist vel til þegar við höfum farið þá leið. Mér finnst að það eigi einnig við að þessu sinni, að það hafi verið mjög gagnlegt fyrir okkur til að koma umræðu um framtíð fjármálakerfisins í betri farveg að hafa fengið góðan hóp af fólki með góða yfirsýn og þekkingu á fjármálamörkuðunum til að vinna þessa vinnu.

Ég vil ítreka þakkir til þeirra sem stóðu að útgáfu bókarinnar, því fólki sem starfaði í þessum starfshópi. Hér undir er gríðarlega mikilvægt samfélagslegt verkefni; að vinna áfram með þessa stöðu, ræða í þaula þörfina fyrir breytingar á regluverki, bæði til að draga úr áhættu fyrir ríkið en svo koma neytendasjónarmiðin líka mjög sterkt fram í þessari hvítbók. Það eru tekin fyrir þessi klassísku umræðuefni sem hefur mjög borið á góma í umræðunni í dag eins og vaxtamunur á Íslandi og samanburður við önnur ríki. Við fáum skýr dæmi um að stjórnvöld hafa í hendi sér að grípa til aðgerða sem eru til þess fallnar að draga úr vaxtamuninum. Við hljótum að taka slíkum ábendingum bæði fagnandi og mjög alvarlega og setja þær hugmyndir í farveg.

Síðan fáum við hér djúpa umræðu um mörg önnur álitamál. Í síðustu ræðu var minnst á neytendasjónarmiðin sérstaklega. Ég tek undir mikilvægi þess kafla. En það er líka farið inn á mikilvægi trausts eignarhalds, virkni verðbréfamarkaða, reifaðir möguleika til að draga úr eignarhaldi ríkisins og viðruð nokkuð sterk sjónarmið um mikilvægi þess að menn hugsi inn í framtíðina og gefi sér nægan tíma til að undirbúa jafn tímafrekar aðgerðir eða tímafreka áætlun og áætlun um sölu á eignarhlut ríkisins er. Í þessari skýrslu er að finna fjölmörg önnur atriði sem skipta máli fyrir umræðuna, eins og t.d. það sem ég fjallaði um fyrr í dag og varðar varnarlínuna á milli fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi.

Það hefur verið mín upplifun á þessum áratug sem liðinn er frá setningu neyðarlaganna, þar sem við vorum í algerri neyð komin í þá stöðu að ekki var um annað að velja en að ríkissjóður myndi stíga inn í Landsbankann sem nýr eigandi og endurfjármagna hann, að það hafi einstaka sinnum farið fram í stuttan tíma umræða um framtíðina. Það hefur að jafnaði strandað á einhverju af þeim atriðum sem eru tekin til dýpri umræðu í skýrslunni. Að þessu leytinu til finnst mér að við séum komin með í hendurnar skýrslu sem hjálpar okkur við að þróa umræðuna lengra og taka í framhaldinu ákvarðanir um næstu skref og framtíðina, byggðar á þessari skýrslu, byggðar á þeim tillögum sem þar er að finna og þeirri umræðu sem fer fram hér í þinginu og umsögnum sem við fáum.

Það sem ég heyri hér í þingsal í dag eru svo sem ekki nein óvænt tíðindi. Það er ítrekað, sem kemur skýrt fram í skýrslunni, að það ríkir ekki mikið traust í garð bankakerfisins, fjármálakerfisins í heild sinni. Þá er nú gott að hafa í höndunum skýrar tillögur um atriði sem eru líkleg til þess að byggja frekar upp traustið. Það hefur aðeins verið að taka við sér, en það er hins vegar algerlega ófullnægjandi.

Í öðru lagi heyrir maður í umræðunni almennt vantraust á einkavæðingarferli og kröfuna um að gagnsæi, varfærni og langtímasjónarmið séu höfð að leiðarljósi. Ég held að það sé auðvelt að ná samstöðu um þetta í sjálfu sér. Það er líka auðvelt að efna til átaka og gera hluti tortryggilega ef menn vilja sérstaklega leggja út í þann leiðangur.

Ég heyri líka skiptar skoðanir um umfang ríkiseignarhalds inn í framtíðina. Það held ég að eigi heldur ekki að vera sérstakt áhyggjuefni eða vandamál fyrir okkur til að fylgja eftir þeim tillögum sem er að finna í skýrslunni, hvað sem líður eignarhaldi ríkisins til lengri tíma á Landsbankanum. Og varðandi hann þá hef ég margoft lýst þeirri skoðun minni við fjölmiðla og hvar sem er svo sem, að til lengri tíma þá sjái ég það fyrir mér að við eigum að leggja upp með kjölfestuhlut í Landsbankanum. En það þarf ekkert að efna til einhverra átaka um þann þátt framtíðarskipulags fjármálamarkaðanna á Íslandi á meðan við höfum úr nógu öðru að moða.

Að því leytinu til er ég ágætlega bjartsýnn undir lok þessarar umræðu um að við getum haldið áfram með ýmsar tillögur sem ættu að vera tiltölulega óumdeildar og varða stöðu neytenda, hvernig við getum styrkt stöðu neytenda í landinu, þannig að menn hafi sterka og góða tilfinningu fyrir því að þeir viti hvert þeir eigi að leita þegar þeim finnst að þeirra réttur sé fyrir borð borinn í samskiptum við fjármálafyrirtæki. Við erum með dæmi um að svo virðist ekki vera í dag í þessari skýrslu. Einnig að við fylgjum eftir öðrum ábendingum sem eiga að vera til þess fallnar að auka skilvirkni í bankakerfinu, sem á að bæta kjör heimila og fyrirtækja, og að við höldum áfram og botnum umræðuna um fjárfestingarbankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Við fáum hér ítrekun í raun og veru á sjónarmiðum frá fyrri nefnd um að það séu góðar leiðir til þess að draga ákveðna varnarlínu og setja, maður gæti sagt þak, á umfang slíkrar starfsemi þegar hún fer saman með viðskiptabankastarfsemi. Um alla þessa þætti er ég vongóður um að við getum náð breiðri samstöðu í þinginu.

Það verður síðan úrlausnarefni mitt ásamt með öðrum flokkum í ríkisstjórninni að fjalla nánar um, mögulega eftir tillögur frá Bankasýslunni, hvaða skref kæmu til álita varðandi aðgerðaáætlun um losun á eignarhaldinu. Í því sambandi vil ég bara ítreka það sem ég hef sagt fyrr í dag. Ég tel það ekki koma til greina að vera með tvo banka til sölu í senn. Við höfum úr nógu að vinna með að láta t.d. reyna á möguleika og markaðsaðstæður þar með talið til þess að losa um eignarhald ríkisins á öðrum bankanum. Ef við getum sammælst um það þá ættu skiptar skoðanir varðandi Landsbankann og eignarhald hans til lengri tíma ekki að vera því til fyrirstöðu að við komumst fram veginn. Og að því leytinu til finnst mér, svona undir lok þessarar umræðu, ástæðu til að vera nokkuð bjartsýnn á að það hafi tekist sem til var sáð, að með þessari hvítbók, með þessari skýrslu, höfum við látið reyna á dýpri og vel ígrundaða umræðu um þessi lykilatriði.

Ég geri ráð fyrir því að við fáum síðan umfjöllun frá efnahags- og viðskiptanefnd (Forseti hringir.) og við munum horfa til umsagna sem borist hafa og eiga samskipti við þingið við hvert skref í framhaldinu.