149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[17:00]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina. Mig langar í fyrri umferð að forvitnast aðeins um samráðið í þessu. Ég veit af samráðsgáttinni og umsögnum sem bárust, 27 held ég. Ég veit af opnum fundi sem ég sat, þeir hafa líklega verið fleiri. En á sama tíma hefur orðið vart við gagnrýni frá ákveðnum heilbrigðisstéttum sem ekki komu þar að og ég er að tala um sjálfstætt starfandi sérfræðinga, svo að dæmi sé tekið. Ég veit að ráðherra og ráðuneytið unnu þétt með Landspítala og mögulega öðrum aðilum innan ríkisrekna hluta kerfisins. Ég er að velta fyrir mér hver aðkoma annarra fagaðila var, sem hefðu getað komið að borðinu með aðra nálgun, aðra sýn, aðra reynslu og hvort þetta er rétt að ákveðin slagsíða hafi verið í því og hver ástæðan er þar.

Þá langar mig líka til að vita hvort hagsmunasamtök sjúklinga sjálfra hafi komið að málum. Í fyrstu umferð hefði ég áhuga á að fá aðeins betri innsýn inn í þetta.