149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar eins og fleiri þingmenn að byrja á að óska hæstv. heilbrigðisráðherra til hamingju með þessa heilbrigðisstefnu. Ég fagna því ávallt þegar við ræðum stóru málin og framtíðarsýnina og horfum til lengri tíma. Það er að sjálfsögðu það sem við eigum að gera en ekki, eins og hér hefur verið nefnt, að slökkva elda og fjalla um forsíður blaðanna hverju sinni eða krísur sem kunna að koma upp — heldur einmitt stóru málin til að koma í veg fyrir þessa elda í framtíðinni og krísur.

Mig langar að byrja á því að nefna 2. mgr. varðandi framtíðarsýnina. Ég fagna því að hér er fjallað sérstaklega um lýðheilsustarf, sem ég held að sé grunnurinn að góðu heilbrigðiskerfi. Grunnurinn að því að við þurfum helst sem minnst að nota þriðja stigs heilbrigðiskerfið er að byggja undir lýðheilsu. Mér finnst sérstaklega skemmtilegt að nefna þetta hér vegna þess að áðan vorum við að ræða almenningssamgöngur og borgarlínu; mörgum finnst það mjög ótengd mál en þau eru þó mjög tengd. Í öllu okkar starfi þurfum við að setja upp það sem ég myndi kalla lýðheilsugleraugu. Það er t.d. gert þegar kemur að því að skipuleggja borgir og bæi, stuðla að því að fólk geti hjólað eða gengið eða notað virka samgöngumáta. Í stórborgum, þar sem fólk notar slíka samgöngumáta, sést að offituvandamál er mun minna en í öðrum samfélögum þar sem fólk notar einkabílinn meira.

Það er að mörgu að hyggja í þessu. Mig langar líka að nefna sérstaklega samstarf við sveitarfélögin í þessu efni. Sveitarfélagið mitt, Mosfellsbær, var það fyrsta til að ganga inn í verkefni landlæknisembættisins um heilsueflandi samfélag. Það er gott verkefni þar sem sveitarfélögunum er ætlað að setja upp þessi lýðheilsugleraugu og horfa á lýðheilsumál í öllum aðgerðum sínum.

Mig langar aðeins að nefna 3. kaflann, Fólkið í forgrunni, og þá er verið að tala um starfsfólkið. Ég verð að viðurkenna að þegar ég hugsa um heilbrigðiskerfið og fólkið þá hugsa ég um almenning og notendur heilbrigðiskerfisins. Ég er þó ekki að gera lítið úr því sem stendur í þessum kafla og tek heils hugar undir mikilvægi þess að við hugum að mannaflanum í heilbrigðiskerfinu. Eins og fréttir síðustu daga og umræðan hér hefur verið vitum við hversu mikilvægt er að tryggja að fólk hafi áhuga á því að sækja nám í þeim fræðum sem skila fólki inn í heilbrigðiskerfið og sé tilbúið að starfa þar áfram. Við vitum líka að við höfum til að mynda menntað fjölda hjúkrunarfræðinga sem hafa svo valið að starfa annars staðar. Það er örugglega hægt að finna ýmsar ástæður fyrir því, og það er eitthvað sem við þurfum að huga að.

Í 8. lið þar undir er talað sérstaklega um samstarf milli stofnana, teymisvinnu og þverfaglega heildræna nálgun, að það eigi að einkenna vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks. Ég tek undir það. Ég held reyndar að þetta sé einn af mikilvægari þáttunum þegar kemur að því að skapa gott starfsumhverfi fyrir hjúkrunarfræðinga og aðrar fjölmennar stéttir, sem eru reyndar helst mannaðar af kvenfólki. Mig langar til að mynda að nefna heilbrigðisstofnunina í mínu sveitarfélagi, Reykjalund. Þar er ekki skortur á hjúkrunarfræðingum og almennt reynist mjög auðvelt að ráða hjúkrunarfræðinga og annað fólk til starfa þangað. Ég held að vinnuaðstaðan skýri það að hluta og sú staðreynd að unnið er í teymum og allir hafa sitt hlutverk í keðjunni. Ég er sannfærð um að það skipti miklu máli þegar kemur að því að byggja heilbrigðiskerfið upp sem áhugaverðan starfsvettvang til lengri framtíðar.

Ég get heldur ekki látið hjá líða að nefna það sem við höfum rætt hér, þ.e. breytingar á því að ljósmæður og hjúkrunarfræðingar geti gefið lyfseðil fyrir getnaðarvarnapillunni. Ég lít á það sem fyrsta skref í átt að því að heilbrigðisstarfsfólki verði treyst enn meira í starfi sínu til að sinna sjúklingnum eða notandanum enn betur.

Í 4. kafla, Virkni notenda, er talað um rafræna notendagátt eins og Heilsuveru, sem er náttúrlega algjör snilld og í raun ótrúlegt að við skulum ekki löngu vera komin þangað, við erum rétt að byrja að stíga þessi skref. Ég minnist þess fyrir meira en 10 árum að hafa starfað með fyrirtækjum sem voru að vinna að nýsköpun á þessu sviði. Ég held að við höfum ótrúlega mikil tækifæri í þessu litla samfélagi okkar til að stíga skrefin svolítið hratt. Við höfum mikla tækniþekkingu og það ætti að vera okkur auðvelt að innleiða nýja tækni, sem er fyrst og fremst til þess fallin að bæta þjónustuna, bæta aðgengi fólks að þjónustu, en ekki síður til að auka hagkvæmni og skilvirkni í kerfinu.

Þá er ég komin að 5. kafla, þar sem talað er um skilvirk þjónustukaup. Ég fagna því, eins og ég skil þetta og ég vona að ég skilji þetta rétt, að verið sé að tala um að Sjúkratryggingar Íslands annist alla samningagerð um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins, hvort sem um sé að ræða þjónustu opinberra aðila eða einkaaðila. Með því legg ég áherslu á að mér finnst mjög mikilvægt að í ráðuneytinu, eða undirstofnunum þess, liggi fyrir skýr sýn á það hvað hvert skref kostar, hvað þjónustan í heilbrigðiskerfinu kostar. Það auðveldar okkur og stjórnkerfinu að tryggja að peningunum sé varið með sem hagkvæmustum hætti. Þess vegna tel ég mikilvægt að það liggi ljóst fyrir hvað liðskiptaaðgerðir, sem talað var um hér áðan, kosta. Eins og hv. þm. Birgir Þórarinsson, sem var hér á undan mér í pontu, talaði um veitir Klíníkin þessa þjónustu og hefur gert það á hagkvæman hátt. Að sjálfsögðu eigum við alltaf að sjá til þess að peningunum sé sem best varið, þannig að ef einhverjir aðilar geta veitt sömu þjónustu með sömu gæðunum eigum við að horfa til þess að kaupa slíka þjónustu.

Að þessu sögðu vil ég sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins — og sumir halda að við viljum alltaf einkavæða heilbrigðiskerfið — geta þess að mér er í raun alveg sama hver rekur heilbrigðisþjónustuna. Aðalmálið er notandinn, að hann fái þá þjónustu sem hann þarf á að halda, að gæðin séu uppfyllt. Mér finnst valfrelsi líka skipta máli, að okkur sé ekki stýrt inn í það að fara til þessa læknis eða inn á þessa heilsugæslu eða í mæðraverndina þarna, heldur sé eitthvert valfrelsi hjá einstaklingnum þegar kemur að því að velja aðila sem sinna heilbrigðisþjónustu. Mér finnst það gríðarlega mikilvægur þáttur. Til þess að uppfylla þau skilyrði held ég að við séum alltaf best komin með blandað kerfi þar sem ýmsir aðilar geta komið að því að veita þjónustuna en kostnaðurinn er alltaf greiddur úr sameiginlegum sjóðum ríkisins.

Ætli ég endi þetta ekki, því þetta er náttúrlega stuttur tími hérna, á því að fjalla um 7. kafla, Hugsað til framtíðar. Þá langar mig að fagna og tala sérstaklega um nýsköpun. Það eru, eins og ég sagði áður í ræðu minni, einhver ár frá því að ég var að vinna að slíkum verkefnum með fyrirtækjum. Þá horfðum við Íslendingar á heilbrigðistækni sem eitt af okkar lykilþekkingarsvæðum, tækifærum í nýsköpun. Ég veit ekki hvort svo sé enn, en við eigum þó töluvert af fyrirtækjum sem hafa náð ótrúlegum árangri á alþjóðlegum vettvangi. Össur er eitt þeirra og ég er að tala um Svefnmælingar og fleiri aðila. Hvort sem það er til þess að geta skapað verðmæti og að hér geti orðið til fyrirtæki með nýrri sköpun eða fyrir heilbrigðisþjónustuna eigum við ávallt að standa á bak við öflugt vísinda- og rannsóknasamstarf á sviði heilbrigðisþjónustu. Við eigum að huga að því að samkeppnissjóðir okkar séu þannig gerðir að verkefni sem lúta að heilsu landsmanna — og þá langar mig sérstaklega að horfa á það út frá lýðheilsusjónarmiðum — eigi greiðan aðgang inn í slíka sjóði. Það er á endanum til þess fallið að við getum veitt öflugri og betri heilbrigðisþjónustu fyrir (Forseti hringir.) sanngjarnar fjárhæðir, þannig að fjármagninu sé sem best varið.

Að lokum segi ég: Til hamingju með þetta plagg. Ég fagna því að við séum hér að ræða þetta og ég óska þess að velferðarnefnd (Forseti hringir.) eigi góðar og gagnlegar umræður (Forseti hringir.) um þetta mikilvæga plagg og fái sem flestar umsagnir um það.