149. löggjafarþing — 59. fundur,  30. jan. 2019.

heilbrigðisstefna til ársins 2030.

509. mál
[18:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég hjó ekki eftir því að sérstakri spurningu væri beint til mín svo að að sjálfsögðu nota ég þá tækifærið til að lengja ræðutíma. (Gripið fram í.) Það er allt í góðu lagi af því að ég skildi alveg heila mínútu eftir af ræðutíma mínum áðan, sem er ólíkt mér.

Það er rétt, sem hv. þingmaður kemur inn á, að mælikvarðar á gæðavísana og skilvirkni skipta okkur gríðarlega miklu máli. Í dag erum við sennilega með 10,5% af landsframleiðslu í heildarframlög okkar til heilbrigðiskerfisins — hæstv. ráðherra leiðréttir mig ef ég fer rangt með — sem er ekkert fjarri hinum Norðurlöndunum. Við erum hins vegar yngri þjóð en hinar Norðurlandaþjóðirnar og við vitum að kostnaður í heilbrigðiskerfinu er mjög aldurstengdur. Hann vex mjög eftir því sem þjóðfélög eldast þannig að við megum vænta þess að kostnaður við heilbrigðiskerfið okkar muni að óbreyttu vaxa mjög mikið af því að þjóðin er að eldast mjög hratt á næstu 10–15 árum. Þess vegna skiptir skilvirknin svo miklu máli.

Við verðum að hafa skýra sýn á það að hvaða árangri við ætlum að stefna, hvernig við ætlum að ná honum og hvort við eigum aðrar leiðir. Ég nefndi í ræðu minni aukna áherslu á að fjárfesta í heilsu landsmanna, t.d. með auknum forvirkum aðgerðum og inngripum fyrr í ferlinu varðandi sálfræðiþjónustu og annað — við þekkjum t.d. afleiðingar langvinnra geðrænna sjúkdóma fyrir heilbrigðiskerfið síðar meir.

Aukið samstarf félagsmálayfirvalda og heilbrigðisyfirvalda skiptir gríðarlega miklu máli og þar eru mjög góð og skemmtileg tækifæri. Varðandi einkarekna hlutann hef ég líka alltaf sagt mjög skýrt — og þess vegna fagna ég því að verið sé að tryggja ákveðna jafnstöðu milli opinbera kerfisins og þess einkarekna þegar kemur að innkaupum og heilbrigðisþjónustu — að ekki eigi að semja við sjálfstætt starfandi lækna eins og um kjarasamning sé að ræða heldur einmitt að gera mjög skýrar kröfur varðandi bæði skilvirkni og gæði og semja á þeim grunni.