149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

aðkoma ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum.

[10:36]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að ríkisstjórnin hefur gert ýmislegt og margt ágætt og skref í rétta átt, en það er því miður of lítið. Við vinnum í umboði fólksins í landinu og hljótum að þurfa að eiga samtöl. Ef við teflum fram einhverjum hugmyndum og einsýnt er að þær nægja ekki í hugum fólks hljótum við að þurfa að skoða málin betur.

Varðandi barnabætur er staðreyndin sú að þótt skerðingarmörkin hafi færst lítillega til eru 12.000 færri sem fá barnabætur í dag en fyrir tíu árum. 20.000 færri fá vaxtabætur nú en fyrir fimm árum. Ég spyr hvort ríkisstjórnin hafi ekki íhugað breytingartillögur Samfylkingarinnar sem gerði ráð fyrir að verja meiri peningum í þær aðgerðir. Það hefur ekki einu sinni farið fram almenn umræða, að ég held aldrei, um hver laun þingmanna og kjörinna fulltrúa ættu að vera miðað við lægstu laun í landinu eða að meðaltali.

Jafnvel þótt hér sé hægt að sýna fram á að þetta sé frysting í þrjú ár ítreka ég spurninguna: Finnst hæstv. ráðherra koma til greina að frysta það lengur?