149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

endurskoðun framfærsluviðmiða LÍN.

[10:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Maður veit ekki alveg hvað maður á að segja. Hér kemur ráðherra málaflokksins og segist hafa ákveðnar áherslur og þá eru aðrir ráðherrar fengnir hingað upp og beðnir um að gera grein fyrir því hvort þeir styðji ráðherrann í að fylgja eftir áherslum í sínu ráðuneyti. Ég skal gera það mjög eindregið.

Ég held að það skipti engu máli hvort það sé fjármálaráðherrann eða aðrir sem eru spurðir í þessu efni. Ég styð menntamálaráðherra í þessum breytingum. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála um að gera þarf breytingar á stuðningskerfi við námsmenn. Það varðar framfærsluna og það varðar frítekjumark vegna atvinnutekna þannig að mönnum sé gert mögulegt að bæta stöðu sína á sama tíma og þeir eru í námi, og beinu styrkirnir munu svo sannarlega gera það. Það varðar það líka, og það er mikilvægur þáttur breytinganna í mínum huga, að hvetja til þess að menn klári nám á tíma, að það geti haft áhrif á stuðning stjórnvalda ef framgangur í námi er ekki eins og gert er ráð fyrir.