149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

efling iðn- og verknáms.

[11:07]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Fyrst aðeins nánar um það sem skiptir máli að gera. Við þurfum að horfa til uppbyggingar námsins og hvernig megi efla það og það þarf auðvitað að vera til sífelldrar skoðunar. Svo þarf að styrkja utanumhaldið með verk- og starfsþjálfun og það er kannski það sem hv. þingmaður nefnir líka hér. Svo þarf að bæta og einfalda aðgengi nemenda að verk- og starfsnámi. Við vitum að það eru ákveðnir flöskuhálsar þegar fólk er búið að klára menntunina en þarf að komast á samning til þess að fá einmitt löggildinguna.

Við erum með mjög öflug og sterk félög fyrir þessar iðngreinar sem halda mjög vel utan um þetta. Við vitum alveg líka að það eru ýmis störf unnin af fólki sem ekki hefur þessa löggildingu. Við höfum auðvitað líka þurft þær hendur vegna skortsins á slíkum starfskröftum. Það er Vinnumálastofnun sem hefur þetta eftirlit undir höndum. Nákvæmlega hvernig því er háttað þyrfti ég að fá að kanna betur til að vita stöðuna.