149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[13:04]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla nú að svara þingmanninum beint: Já, þingmannanefndin getur gert það, ýtt undir vísindasamstarf o.s.frv. Ég lít svo á að við, þessi þrjú sem þar sitjum, höfum fengið hérna ákveðinn punkt í nesti til að fara að undirbúa næstu ráðstefnu. Það er ekkert flóknara en það.

Aðeins varðandi miðlunina, þegar ég er að tala um einhvers konar alþjóðamiðstöð megum við ekki gleyma því að það er háskólasamstarf norðurslóða. Það eru vefsíður, stórar og miklar, og það eru ráðstefnur vísindamanna og samstarfsnefndir. Ég er að tala um að reyna kannski að koma betra skipulagi á einhvers konar miðlæga samvinnu og gagnaskiptastofnun, ef við orðum það þannig. Þetta er ekki þróað hjá mér, ég bara slengi þessu fram.

Aðeins varðandi Bandaríkin. Þeirra þingmannanefnd er ekki til í raun. Það er ein mjög virk þingkona, Lisa Murkowski, þingmaður í Alaska, sem hefur leitt það allt saman, samstarf okkar þingmannanefndanna við Bandaríkin. Hún hefur tekið með sér hina og þessa á þessa fundi, en það hefur aldrei orðið til í bandaríska þinginu formleg þingmannanefnd eins og hér hjá okkur. Það er eina þjóðin sem hefur þannig búið um. Það finnst mér erfitt og ég ræddi sérstaklega við Lisu Murkowski núna í haust um að menn kæmu betra skikki á þetta.

Hitt er svo annað mál að stefna Bandaríkjanna í norðurslóðamálum var aðeins mótuð meðan þeir voru með formennskutíðina í Norðurskautsráðinu, en eftir að Trump komst til valda snýst þessi stefna eingöngu að mínu mati um að vinna auðlindir á norðurslóðum, þ.e. olíu, fara út í olíuvinnslu á ný í Alaska sem var búið að skrúfa fyrir, ganga inn á friðuð svæði, ganga inn á svæði sem frumbyggjar hafa (Forseti hringir.) talið sín o.s.frv. Það tel ég í fyrsta lagi ranga stefnu, en líka veika stefnu.