149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

vandi ungs fólks á húsnæðismarkaði.

[15:51]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni fyrir að taka hér upp húsnæðismál sem eru gríðarlega mikilvægur málaflokkur, rétt eins og þingmaðurinn rakti í ræðu sinni.

Það er auðvitað hægt að fara yfir og velta fyrir sér tölfræðinni, hvernig staða ungs fólks á húsnæðismarkaði hefur þyngst hér á landi á undanförnum árum, og allt hárrétt sem þingmaðurinn rakti í því efni. Það er erfiðara fyrir ungt fólk að fara út á húsnæðismarkaðinn en verið hefur. Ungt fólk fer seinna á lífsleiðinni út á húsnæðismarkaðinn og aldur fólks þegar það kaupir sína fyrstu eign og/eða flytur að heiman hefur hækkað. Það er líka rétt að halda því til haga að mikill meiri hluti þeirra sem eru á leigumarkaði vill vera í sínu eigin húsnæði.

Þingmaðurinn velti því upp hér hvaða aðgerðir væru í gangi og vitnaði til tillögu um átakshópinn sem skilaði 22. janúar sl. ríkisstjórninni tillögum sínum. Ríkisstjórnin hefur sagt að í húsnæðismálum líkt og í fleiri stórum málum viljum við eiga gott samstarf og samvinnu við stéttarfélögin og við aðila vinnumarkaðar um frekari þróun húsnæðiskerfisins. Það er ekki alveg rétt sem þingmaðurinn sagði, að ekki hefði tekist að búa til módel sem gæti komið tekjulágum til aðstoðar á húsnæðismarkaði sem vildu vera á leigumarkaði vegna þess að almenna íbúðakerfið sem komið var á fót hérna 2015 undir forystu þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur, hefur gefist mjög vel. Það hefur hins vegar tekið aðeins lengri tíma að fara af stað. Byggingarfélagið Bjarg hefur tekið sér aðeins lengri tíma en stóð til en allt bendir til þess að á næstu árum komi það af mjög miklum krafti inn á húsnæðismarkaðinn, auk þess sem almenna íbúðakerfið hefur getað stutt myndarlega við uppbyggingu á stúdentaíbúðum.

Það er ánægjulegt að átakshópurinn kemst að þeirri niðurstöðu að byggja áfram á þeim grunni sem lagður var hér 2015 en hópurinn kynnti fjölmargar tillögur sem ættu að liðka fyrir uppbyggingu húsnæðis, þar á meðal óhagnaðardrifinna leigufélaga. Það voru líka lagðar til aðgerðir til að lækka fjármagnskostnað, flýta fyrir byggingarframkvæmdum og auka hvata til að auka framboð húsnæðis og uppbyggingu á hagkvæmum íbúðum. Þetta voru 40 tillögur sem nú eru í frekari úrvinnslu hjá stjórnvöldum og frekara samtali við aðila vinnumarkaðarins um hvaða tímaramma við sjáum á þessu, hvernig það spilar inn í kjarasamninga, hvaða upphæðir við sjáum fyrir okkur koma inn í, eins og almenna íbúðakerfið, og með hvaða hætti þetta verði útfært frekar. Ég vonast til þess að út úr því komi jákvæðar niðurstöður. Ég hef ekki fundið annað og það er ánægjulegt að allir sem sátu við borðið voru sammála um þessar línur.

Þingmaðurinn spyr líka: Hvaða aðgerðir eru fyrir þá sem vilja kaupa sína fyrstu eign?

Það er alveg skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að hún ætlar að koma með aðgerðir til að auðvelda ungu fólki að kaupa sína fyrstu fasteign. Þar er núna í gangi vinna undir forystu Frosta Sigurjónssonar, fyrrverandi alþingismanns og fyrrverandi formanns efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, sem er að fara ofan í þessi mál til að meta með hvaða hætti við getum með víðtækum aðgerðum stutt við ungt fólk til að koma inn á húsnæðismarkaðinn. Þarna koma að fjármálaráðuneytið, forsætisráðuneytið og fleiri aðilar. Þar horfum við m.a. til þess, sem var sagt þegar þessi vinna var sett af stað, að ungt fólk geti nýtt sér sinn lífeyrissparnað. Við horfum til svissnesku leiðarinnar í því samhengi annars vegar og hins vegar til nágrannalanda okkar, svo sem Noregs.

Þingmaðurinn spyr hvað þeim sem hér stendur finnist um tillögur Samfylkingarinnar í húsnæðismálum. Við eigum að hlusta á góðar tillögur alveg sama hvaðan þær koma. Það sem gleður mig mest með Samfylkinguna í þessu tilfelli er að Samfylkingin, sem ég hef í gegnum tíðina heyrt tala um að eina lausnin á vanda húsnæðismála á Íslandi sé að ganga í Evrópusambandið eða taka upp evru, er farin að horfa til Noregs, sem er land utan Evrópusambandsins, varðandi lausnir á því hvernig hægt sé að efla og styrkja húsnæðismarkaðinn. Fyrir það vil ég óska hv. þingmanni og Samfylkingunni til hamingju.

Að því loknu vil ég segja að ég horfi á þetta þannig að það er (Forseti hringir.) sama hvaðan góðar hugmyndir koma, hvort sem þær koma frá Samfylkingunni eða einhverjum öðrum, vegna þess að ef við getum náð saman um víðtækar tillögur, líkt og gerðist (Forseti hringir.) með átakshópinn, er það fagnaðarefni vegna þess að það er gríðarleg þörf á því.