149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

endurgreiðslur vegna kaupa á gleraugum.

507. mál
[17:13]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur fyrir fyrirspurnina og vil byrja á að segja að mér fannst mjög athyglisvert að skoða þetta mál þegar ég fór aðeins að skoða það. Rétt eins og þingmaðurinn bendir á hefur frumvarp verið lagt fram þrisvar sinnum á Alþingi um breytingu á þessu.

Árið 2005 var sett reglugerð um endurgreiðslur vegna gleraugna, líkt og þingmaðurinn benti á í fyrirspurn sinni, og miðaðist reglugerðin sérstaklega við börn en þó eru undantekningar varðandi fullorðna. Í reglugerð árið 2005 voru ákveðnar upphæðir til greiðslu og hafa þær ekki verið uppfærðar síðan. Að jafnaði er sótt um endurgreiðslu fyrir um 4.000 manns á ári í þennan pott, skulum við segja.

Upphæðir hafa ekki verið hækkaðar frá þeim tíma og koma reglulega athugasemdir um hversu lágt hlutfallið er af gleraugnakaupum foreldra fyrir börn sín. Og eðlilega, vegna þess að þingmaðurinn hefur fylgt þessu máli mjög fast eftir við fleiri en einn ráðherra. En þó er það í fyrsta sinn sem þingmaðurinn fylgir þessu eftir við þennan sitjandi ráðherra og bið ég þingmanninn að skoða svörin í því ljósi.

Í gangi er vinna við að endurskoða reglugerð nr. 233/2010 um úthlutun á hjálpartækjum á vegum Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Mín áætlun hefur staðið til þess að samhliða því sem þeirri vinnu lyki yrði farið yfir og endurskoðuð reglugerð frá 2005, sem er þessi umrædda reglugerð, um þátttöku ríkisins í kostnaði við gleraugu.

En eins og þingmaðurinn kom inn á er rétt að árétta að notendur sem miðstöðin sinnir fá úthlutað gleraugum og öðrum hjálpartækjum þeim að kostnaðarlausu.

Ég vil þó segja að þetta er sú vinna sem hefur verið í gangi og ég vil bæta við það hérna að ég held að ástæða sé til að að flýta þeirri vinnu eins og kostur er. Ég mun beita mér fyrir því á næstu vikum og mánuðum að það verði gert og að við leitum leiða til að koma betur til móts við þau börn sem þarna um ræðir.