149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:23]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðjóni S. Brjánssyni fyrir fyrirspurnina. Það er mikilvægt að ræða flokkun á úrgangi og raunar úrgangsmál almennt og ég fagna þessari umræðu sérstaklega.

Eitt af mínum áherslumálum sem ráðherra er að takast á við neyslu og sóun. Núverandi auðlindanotkun okkar er ósjálfbær að mörgu leyti og afar brýnt að takast á við þau umhverfis- og loftslagsáhrif sem neysla í nútímasamfélagi hefur í för með sér.

Úrgangsmálin eru nátengd þessu og sú spurning hvað við ætlum að gera við allan þann úrgang sem til fellur, hvaða farveg við búum honum — og sú allra mikilvægasta: Hvernig ætlum við að draga úr því að hann myndist til að byrja með?

Samkvæmt lögum um meðhöndlun úrgangs er það sveitarstjórn sem ákveður fyrirkomulag söfnunar af heimilis- og rekstrarúrgangi í hverju sveitarfélagi. Það er því hverrar sveitarstjórnar að kveða á um skyldu einstaklinga og lögaðila til að flokka úrgang. Leiðirnar sem eru farnar eru ólíkar og oft mikið ósamræmi í flokkun úrgangs milli sveitarfélaga hér á landi.

Sum sveitarfélög eru langt komin varðandi flokkun og önnur ekki. Heilt yfir er að mínu mati flokkun á landinu ekki í nægjanlega ásættanlegu horfi þótt mörg sveitarfélög standi sig með prýði og sum hafi gert það í mörg ár. Ljóst er samt að hægt er að gera miklu betur, bæði hvað varðar flokkun úrgangs og aðra meðhöndlun hans.

Hvað það varðar í hvaða sveitarfélögum úrgangur er flokkaður er Umhverfisstofnun ekki með yfirlit yfir flokkunarkerfi sveitarfélaganna og fær ekki upplýsingar um umfang flokkunar sendar frá sveitarfélögunum. Því liggur t.d. ekki fyrir yfirlit yfir þau sveitarfélög sem bjóða upp á moltugerð, sem er eitt af því sem hv. þingmaður spurði um.

Varðandi förgun lífræns úrgangs má fullyrða að öll sveitarfélög séu með einhvers konar leið fyrir lífrænan úrgang, enda er það lögbundin skylda hvers sveitarfélags að hafa farveg fyrir þann úrgang sem fellur til innan þess. Afar misjafnt er á hinn bóginn hvort sú leið byrji við heimili fólks eða annars staðar í sveitarfélaginu.

Þetta gerir fólki augljóslega miserfitt um vik að flokka frá lífrænan úrgang, eins og hv. þingmaðurinn kom inn á áðan. Meðan við urðum lífrænan úrgang, eins og staðan er allt of víða, erum við í raun að henda verðmætum og oft og tíðum að auka neikvæð áhrif á loftslag vegna metanlosunar frá urðunarstöðum.

Mikil og góð vinna á sér stað á vettvangi Evrópusambandsins til að takast á við einmitt þetta, stuðla að bættri nýtingu auðlinda og hætta að henda þeim miklu verðmætum sem við gerum. Hið svokallaða hringrásarhagkerfi gengur út á þetta en þar er markmiðið að draga úr sóun, auka endurvinnslu og endurnýtingu og halda verðmætum eins lengi og hægt er inni í hringnum. Um leið drögum við úr áhrifum á umhverfið og losun gróðurhúsalofttegunda.

Tillögur ESB varðandi hringrásarhagkerfið munu verða innleiddar hér á landi í gegnum EES-samninginn og gert er ráð fyrir að leggja fram frumvarp næsta haust til innleiðingar á tilskipuninni. Fyrir liggur að með þeirri innleiðingu verða kröfur um flokkun stórauknar. Sem dæmi verður gerð krafa um sérstaka söfnun á lífrænum úrgangi árið 2023 og árið 2025 verður síðan gerð krafa um sérstaka söfnun á textílúrgangi og spilliefnum. Lágmarksflokkun byggingar- og niðurrifsúrgangs verður jafnframt gerð að skyldu.

Á vegum Umhverfisstofnunar er nú unnið að endurskoðun á stefnu ráðherra um meðhöndlun úrgangs sem samþætt verður þessum tillögum um hringrásarhagkerfið. Þar verða sett fram skýr mælanleg markmið til næstu 12 ára og sérstakar aðgerðir þeim tengdum. Þessi atriði muni stuðla að betri úrgangsflokkun á Íslandi.

Það er skoðun þess sem hér stendur að mikilvægt sé að leiða í lög skyldu sveitarfélaga og rekstraraðila til að flokka úrgang. Einnig er mikilvægt að flokkun úrgangs verði samræmd á landsvísu og almenningi og ferðamönnum þannig gert verkefnið enn auðveldara. Ein af þeim tillögum sem ég fékk afhenta frá samráðsvettvangi um aðgerðaáætlun í plastmálum kvað einmitt á um þetta.

Stjórnvöld hafa auk þess til skoðunar að leggja á urðunarskatt og bann við urðun á lífrænum úrgangi. Slík stjórntæki geta skilað miklu varðandi betri meðhöndlun verðmæta og auðlinda sem felast í úrgangi auk þess sem um mikilvægt loftslagsmál er að ræða.

Ég tek undir það að mikilvægt er að efla fræðslu til almennings, bæði um nauðsyn þess að draga úr neyslu og sóun sem og nauðsyn þess að flokka það sem til fellur til að hægt sé að nýta áfram sem best það hráefni sem felst í því sem við köllum úrgang — því að ég endurtek að í honum felast verðmæti.

Ráðuneytið hefur styrkt ýmis verkefni sem miða að þessu, svo sem námsefnið Af stað með úrgangsforvarnir auk þess að styðja grasrótarstarf á sviði úrgangsmála. Þar má nefna vitundarvakningu um fatasóun. Þá hefur bæði Alþingi og ráðuneytið í bráðum 20 ár stutt við grænfánaverkefni Landverndar sem m.a. starfar að úrgangsflokkun í um 200 leik-, grunn- og framhaldsskólum á landinu.