149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

sorpflokkun í sveitarfélögum.

354. mál
[17:31]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir þetta innlegg í þessa umræðu, og ráðherranum fyrir svörin. Ég held að þetta sé mjög gott. Ég ætla að taka undir með síðasta ræðumanni, ég held að þetta sé málaflokkur sem því miður er brotinn mjög víða. Við horfum fram á alls konar áskoranir í upphafi nýs árs, ein af þeim sem væri góð væri að vigta og flokka. Það er allt of mikil sóun í gangi á svo marga vegu. Við sáum það síðast 1. febrúar, í frétt á Vísi, að Lundarskóli á Akureyri, sem er með tæplega 500 nemendur, minnkaði matarsóun um nærri 50 kíló á dag. Það er ekkert smáræði. Þar var bæði verið að fræða nemendur um það hvernig við kaupum í matinn, vistsporið og ýmislegt í kringum það.

Ég hef haft þær hugmyndir, af því að það sem kemur við pyngjuna hjá okkur skiptir gjarnan máli, að ekki verði einungis flokkað í öllum sveitarfélögum (Forseti hringir.) heldur verði þannig útbúnaður í bílunum, þegar verið er að taka ruslið, að hægt sé að vigta frá hverju heimili, þannig að þú borgir í raun fyrir þann (Forseti hringir.) úrgang sem þarf að urða eða brenna.