149. löggjafarþing — 61. fundur,  4. feb. 2019.

bólusetning ungbarna gegn hlaupabólu.

400. mál
[17:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Hún hefur beint til mín munnlegri fyrirspurn um bólusetningu ungbarna gegn hlaupabólu í tveimur liðum og spyr í sinni fyrri spurningu hvort fyrirhugað sé að hefja almenna bólusetningu ungbarna gegn hlaupabólu.

Bólusetningar eru ónæmisaðgerð sem er ætlað að koma í veg fyrir alvarlegan smitsjúkdóm. Þar er um að ræða fyrsta stigs forvörn og bólusetningar eru áhrifaríkasta leiðin til að vinna gegn smitsjúkdómum. Markmiðið með bólusetningum er að hindra farsóttir, útrýma smitsjúkdómum og draga úr hættulegum afleiðingum þeirra. Bólusetningar hafa verið almennar hér á landi í marga áratugi og þátttaka í þeim er hlutfallslega mikil, einkum í bólusetningum barna. Þetta er mjög mikilvægt þar sem farsóttum verður ekki haldið í skefjum nema þorri fólks sé bólusettur.

Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur og er algengastur hjá börnum. Yfirleitt er um vægan sjúkdóm að ræða, en í einstaka tilvikum getur hlaupabóla orðið að alvarlegum sjúkdómi, þ.e. ef veiran nær að dreifa sér til ýmissa líffæra og valda skaða. Í kjölfar hlaupabólusýkingar tekur veiran sér bólfestu í taugum líkamans og liggur þar dulin. Hún getur síðar tekið sig upp og valdið svokölluðum ristli. Hlaupabóluefni hefur verið á markaði á Íslandi í nokkur ár, en ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um almenna notkun bóluefnisins í ungbarnabólusetningum hér. Mörg lönd hafa innleitt almenna bólusetningu gegn hlaupabólu hjá börnum. Mesta reynslan af bólusetningunni hefur fengist frá Bandaríkjunum, en þar hófst almenn bólusetning hjá börnum árið 1996.

Sóttvarnaráð hefur samkvæmt sóttvarnalögum það hlutverk að móta stefnu í sóttvörnum og vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir til varnar útbreiðslu smitsjúkdóma. Sóttvarnaráð fjallaði um málið á fundi sínum þann 4. desember sl., þ.e. nákvæmlega þetta mál, og leggur til að hafin verði almenn bólusetning gegn hlaupabólu hjá börnum á Íslandi og sömuleiðis sérstakur ráðgjafahópur um bólusetningar á sínum fundi 21. desember sl. Í framhaldi af þessum fundum, þ.e. sóttvarnaráðs og síðan þessa sérstaka ráðgjafahóps, leggur sóttvarnalæknir til við heilbrigðisráðuneytið að hafin verði almenn bólusetning gegn hlaupabólu hjá börnum á Íslandi og að sóttvarnalækni verði falið að skipuleggja bólusetninguna í samræmi við reglugerð um bólusetningar, nr. 221/2001, og er málið því algerlega nýverið komið til skoðunar í heilbrigðisráðuneytinu í samræmi við þessa ábendingu.

Hv. þingmaður spyr: Hver yrði kostnaðurinn við að gera bólusetningu gegn hlaupabólu hluta af almennum ungbarnabólusetningum hér á Íslandi? Er því til að svara að í dag eru skipulagðar bólusetningar barna sem eiga lögheimili á Íslandi forráðamönnum þeirra að kostnaðarlausu. Þá geta hraustir einstaklingar sem ekki hafa fengið hlaupabólu fengið bólusetningu að eigin ósk á eigin kostnað.

Kostnaðarhagkvæmni bólusetninga gegn hlaupabólu er mikil. Erlendar rannsóknir hafa sýnt að bólusetningin leiðir af sér sparnað í samfélaginu, aðallega vegna minni fjarvista foreldra frá vinnu en einnig vegna fækkunar á alvarlegum veikindum og fækkunar á ristli hjá fullorðnum. Sömuleiðis hefur kostnaðarhagkvæmnisúttekt á Íslandi sýnt að búast má við að bólusetningin yrði hagkvæm hér.

Miðað við markaðsverð bóluefnis gegn hlaupabólu í janúar 2019 gæti árlegur kostnaður bólusetningar eins fæðingarárgangs verið um 40 milljónir án virðisaukaskatts, en full bólusetning felur í sér tvær sprautur. Hins vegar má búast við hagstæðara verði í kjölfar útboðs, eins og venjan er með bóluefni í almennum bólusetningum.

Virðulegur forseti. Ég vona að þetta séu fullnægjandi svör við spurningum hv. þingmanns, þ.e. annars vegar liggur fyrir tillaga sóttvarnalæknis, sem er til jákvæðrar skoðunar í ráðuneytinu, og hins vegar er samkvæmt markaðsverði bóluefnis kostnaðurinn um 40 milljónir, en ætla má að verðið yrði lægra að afloknu útboði.