149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:45]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir annað andsvar. Ég held að nauðsynlegt sé að nálgast þetta út frá því að allar stofnbrautirnar séu undir á sama tíma. Varðandi það hvort þær séu að fullu fjármagnaðar með veggjöldum vísa ég í fyrra andsvar mitt. Það getur alveg komið til ef niðurstaðan verður sú að setja einhvers lags stofnfjárframlag eða eiginfjárinnspýtingu inn í það opinbera hlutafélag sem á heldur. Þá kemur það alveg til greina í mínum huga.

Það var annað atriði sem hv. þingmaður kom inn á. (HKF: Hvort þetta sé skattlagning, er búið að búa svo um hnútana að eini valkosturinn …)— Akkúrat. Ég verð að viðurkenna að ég hef síðan ég kom inn á okkar háa Alþingi greitt atkvæði gegn öllum skattahækkunum sem hanteraðar hafa verið til okkar í tengslum við fjárlagaumræðu. Ég lít þannig á að hér sé um flýtigjald að ræða. Sá sem borgar nýtur beins ábata af. Ég er alveg til í að rökræða það aðeins áfram (Forseti hringir.) en að lítt hugsuðu máli er ég ekki alveg til í að stimpla þetta sem skatt, ekki enn sem komið er. Ég gæti þó alveg komist að þeirri niðurstöðu að betur íhuguðu máli.