149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:52]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að hér sé verið að vinna að kerfisbreytingum í samgöngumálum þjóðarinnar sem aldrei fyrr, hvort sem litið er til vegsamgangna í landinu eða til flugvallanna og í flugi almennt í landinu, sem er geysilega mikilvægt.

Þessi ríkisstjórn hefur oft verið gagnrýnd fyrir að gera ekki kerfisbreytingar. Það er þusað og tuðað yfir því hér dagana langa, en í þessari umræðu talar enginn um þær gríðarlegu kerfisbreytingar sem er verið að gera til að styrkja samgöngukerfi landsins og hvaða leiðir menn eru að fara til að ná þeim markmiðum í þeirri stöðu sem við erum og hvernig eigi að fjármagna þetta í gegnum notendagjöld. Það er raunverulega leiðarstefið í öllu þessu máli.

Er hv. þingmaður sammála því að hér séum við að fara í kerfisbreytingar þar sem við byggjum á notendagjöldum og horft sé til lengri tíma?