149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

staða iðnnáms.

[10:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Nýlega beitti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sér fyrir því að nemar til kennararéttinda fengju það sem kallað er launað starfsnám. Það er náttúrlega að góðu heilli gert en ég geri ráð fyrir því að hæstv. menntamálaráðherra hafi áttað sig á því að með aðgerðinni myndi hún opna glugga varðandi fleiri námsgreinar eða námsbrautir. Mér hefur heyrst að m.a. hjúkrunarnemar hafi sótt í slíkt líka og vilji gjarnan komast í röðina, í starfsnám.

En það leiðir huga minn að öðru. Við erum með viðvarandi skort á iðnaðarmönnum. Það er þannig með iðnnema að þeir eru hvað útsettastir fyrir því að þurfa á launum að halda meðan á námi stendur. Það hefur verið vissum erfiðleikum háð, veit ég, í nokkrum iðngreinum að fá það sem kallað er samningur.

Spurningin er hvort hæstv. ráðherra hyggist gera eitthvað í málefnum iðnnema. Það má gera á ýmsan hátt, m.a. með því að stærri fyrirtæki bregði sér í hlutverk meistara þegar þau ráða nema til starfa. Það er líka hægt að gera með því að styðja við minni fyrirtæki og einyrkja sem hafa náttúrlega goldið fyrir tregðu ríkisstjórnarinnar til að lækka tryggingagjald. Það má líka hugsa sér að styðja við fyrirtæki í þeim geirum þar sem samkeppni er mikil og erfiðleikar í rekstri. Þetta á t.d. við um veitingarekstur þar sem eru nemar bæði í framreiðslu og matreiðslu.

Mig langar að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hún hyggist beita sér fyrir því að iðnnemar, eða fleiri nemar en bara kennaranemar, fái aðgang að launuðu starfsnámi.