149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (U):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Bryndísi Haraldsdóttur, fyrir mikilvæga umræðu og eins þakka ég hæstv. ráðherra fyrir þátttöku hennar. Ég ætla að víkja að einum þætti sem hv. málshefjandi hefur gert að umræðuefni, bæði í framsögu og í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun, en það er þáttur menntakerfisins. Við getum séð fyrir okkur eins konar keðju. Keðjan er svona: Það er þekking sem leiðir af sér nýsköpun, nýsköpun leiðir af sér aukna framleiðni og aukin framleiðni leiðir af sér aukinn hagvöxt. Við vitum hvað það þýðir: Bætt lífskjör og aukin velferð. Við erum stödd í innsta kjarna mála.

Herra forseti. Í vissum skilningi má líta á háskóla sem framleiðslufyrirtæki sem framleiðir þekkingu. Aðferðafræði í hverri grein er undirstaða þeirrar þekkingaröflunar. Háskólar verða að ástunda gagnrýna hugsun, draga fyrri niðurstöður óhikað í efa og spyrja spurninga. Þeir eru ekki verndað starfsumhverfi þar sem fólk getur verið óhult fyrir sjónarmiðum eða skoðunum sem því falla ekki geð og baráttuvísindi hvers konar eiga ekki erindi inn fyrir veggi í háskóla. Þekkingaröflun, reist á viðurkenndum aðferðum og frjálsri og gagnrýninni hugsun, er aðalsmerki hvers háskóla og þannig gegna þeir best hlutverki sínu. Það er mikilvægt að efla gæðaeftirlit með rannsóknum á háskólastigi og hlúa að rannsóknum, akademískum jafnt sem þeim sem stundaðar eru í atvinnulífinu sjálfu, (Forseti hringir.) með öllum ráðum.