149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:48]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Ég held að að mörgu leyti stöndum við okkur afskaplega vel í því að hvetja fólk til nýsköpunar og hjálpum fólki gjarnan í fyrstu skrefunum. Eins og kom fram í máli hæstv. ráðherra: Hvernig getum við aukið vöxt þessara fyrirtækja og tryggt að það sem er sett í þetta kerfi skili árangri? Það er auðvitað mjög margt sem þar kemur til en ég vil nefna að styrkir og aðstoð af ýmsu tagi er góðra gjalda vert og bráðnauðsynlegt en síðan þarf að búa þannig um hnúta að fjárfest sé í þeim fyrirtækjum sem eru komin á vaxtarskeið, að þau hafi tækifæri til þess. Sem betur fer höfum við ýmsa sjóði sem sinna því verkefni en gera þarf betur. Það dregur hugann að því að í umsjá ríkisins er Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins sem fjárfestir í fyrirtækjum og hefur gert það ágætlega en ég held að tími sé kominn til að endurskoða hlutverk hans í því augnamiði að hann verði meira að svokölluðum sjóðasjóði, þ.e. að hann fjárfesti, verði meðfjárfestir eða fjárfesti hreinlega í öðrum sjóðum sem fjárfesta svo aftur.

Það minnir mig á að fyrir u.þ.b. ári lagði ég fram fyrirspurn um framtíð Nýsköpunarsjóðs og þá var von á skýrslu um það á næstu vikum. (Forseti hringir.) Mig langar að spyrja ráðherrann hvort sú skýrsla liggi fyrir eða hvort verið sé að taka ákvarðanir um breytingar á stöðu Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins.