149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[12:06]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Við afgreiðum samgönguáætlun lítt breytta og opnum á þær viðbætur sem hafa verið hér aðallega til umræðu. Ég ætla að grípa á nokkrum gagnrýnisatriðum sem við höfum heyrt. Það hefur verið gagnrýnt að ríkisstjórnin sé að breyta um kúrs í þessum efnum og ferlið hefur verið gagnrýnt. Þær breyttu aðstæður sem við höfum rakið, hvort það er ákall utan úr samfélaginu, öryggismálin eða hvað annað, gera það að verkum að það er engin skömm að því að breyta um kúrs eins og sagt er. Ég bið menn um að taka það til greina.

Meginfjármögnun samgönguáætlunar hefur verið ótekjutengd gjöld og skattar árum saman. Ég hef gert grein fyrir því hvers vegna hluti af þeim hefur farið annað en í vegina sjálfa. Þegar fjármögnun samgönguáætlunar liggur nú fyrir er alveg ljóst, gagnrýni og annars vegna, að viðbótar er þörf. Og hvaðan á sú viðbót að koma? Ýmsar hugmyndir hafa komið fram, m.a. að taka hluta af hagnaði ríkisins í fyrirtækjum ríkisins, nota almenna skatta, selja ríkisfyrirtæki og hækka ýmis gjöld. Því er til að svara að auðvitað er nóg af öðrum verkefnum. Við höfum forgangsraðað heilbrigðismálunum fram fyrir vegi, menn geta deilt um það, og það er alveg ljóst að verði eitthvað af þessu sem ég hef talið hér upp eru nóg verkefni fyrir þá peninga, þótt ekki væri nema að laga bótakerfið. Veggjöldin voru sem sagt valin og þau eru ótekjutengd eins og ótal önnur gjöld í samfélaginu.

Það hefur líka verið gagnrýnt að hér sé ekki jafnræði á ferð og látið að því liggja að öll veggjöldin sem fari t.d. út á landsbyggðina séu innheimt í borginni. Það er alrangt, þau eru innheimt af ýmsum gjaldaleiðum, ekki síst úti á landi. Segjum að Hornafjarðarfljót og sá vegur fari í gjöld eða þessar þrjár stofnleiðir, Borgfirðingar og aðrir greiða jafn mikið og Reykjavíkurbúar gera, auðvitað í hlutfalli við fjölda. Það er félagslegt réttlæti að hluti af þeim umbótum sem fengjust af veggjöldum gangi til landsbyggðarinnar. Við getum horft til framlaga hennar til þjóðarbúsins ef menn vilja eitthvert réttlæti, en ég kalla þetta einfaldlega félagslegt réttlæti sem þarf að huga að.

Varðandi ábatann er það þannig að þegar menn leggja á gjöld, eins og ég kalla þetta, hvort það eru bílastæðagjöld eða einhver önnur gjöld, er einhver ábati af þeim og menn þurfa ekkert að hugsa sig mikið um hver ábatinn er af t.d. bílastæðagjöldum á Þingvöllum, svo ég taki dæmi.

Reikningsdæmi sem ég hef stundum lagt fram, þar sem ég tek fram raunkostnað við rekstur bíla sem hleypur á tugum króna eða fer jafnvel yfir 100 kr. á ekinn kílómetra, gerir það að verkum að ef við erum að tala um 50 km leið erum við að tala um 3.000–5.000 kr. raunkostnað. Það verður að vega og meta upphæð veggjalda sem eru þá í tugum króna eða örfáum hundruðum króna á móti þessari upphæð því að það er raunveruleikinn. Þegar kemur að því að meta ábatann höfum við talað um tímasparnað, eldsneytissparnað og minna slit á bílum. Við höfum talað um öryggi og greiðfærni fyrir þá tugi eða þau hundruð króna sem þarna eru miðað við þúsundirnar sem menn aka fyrir þær nauðsynlegu leiðir sem þeir þurfa að fara. Það að kalla þetta íþyngjandi gjöld er í raun ekki sannleikanum samkvæmt. Ég vil líka nefna að sömu gagnrýnendur opna á gjöld innan Reykjavíkur, hvort sem þau eru kölluð stokkagjöld, mengunargjöld eða eitthvað annað til að koma á almenningssamgöngum og flæði umferðar í Reykjavík og minni mengun í Reykjavík. Við getum kallað þau veggjöld, götugjöld, svæðisgjöld eða hvaðeina. Þessi hugmyndafræði er mönnum ekkert framandi ef þeir horfa á raunveruleikann.

Svo má ræða loftslagsávinninginn, minni mengun, greiðari almenningssamgöngur og hvatann sem felst í því að bensín- og olíubílaeigendur greiða tvenns konar gjöld, bensín-/olíugjald og veggjald. Rafbílaeigendur og aðrir slíkir greiða einfalt gjald, bara veggjald, og í því er hvati til orkuskipta. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því heldur.

Þá vil ég minna á lækkun eldsneytisgjalds en spáð er að það muni á næstu fimm árum sennilega lækka um allt að 9 milljarða kr. Þessi veggjöld eru m.a. til að mæta því en þau eru líka til bráðabirgða. Það hefur margoft komið fram að ekki verður byrjað að innheimta þessi gjöld fyrr en framkvæmdum lýkur og það verður hætt að innheimta þau þegar lánin eru uppgreidd. Síðan þurfum við að hyggja að því hvernig vistvænir bílar verða skattaðir eða gjaldaðir í framtíðinni með kílómetragjaldi eða á annan máta. Ég lít einfaldlega á þetta sem eins konar þjóðarátak.

Einhverju sinni var talað um Hvalfjarðargöngin. Þar voru hjáleiðir. Það eru hjáleiðir í öllum þeim tilvikum sem við erum að tala um stofnleiðir. Menn eru sumir hverjir ekki betri í landafræði en svo að þeir halda því fram að það séu ekki hjáleiðir, en þær eru.

Ég þreytist aldrei á að minna á gamla Keflavíkurveginn. Hvers vegna í ósköpunum var hann í lagi en nú eru veggjöld ekki í lagi?

Gagnrýnendur opna svo á gjöld innan höfuðborgarsvæðisins sem verða innheimt rafrænt af akstri. Fyrirmyndin er enn og aftur Ósló. Ég ætla líka að minna á að það er almenn ánægja þeirra sem búa á því norska svæði, a.m.k. 50–60%, með árangurinn sem er tölusettur. Menn geta leitað uppi árangurinn af þeirri aðgerð. Forgangsröðunin er og var klár í samgönguáætlun, henni var bara dreift á 15 ár. Það var verið að forgangsraða þannig að öryggisminnstu vegirnir voru settir í forgang að því leyti sem væri hægt að tala um forgang í 15 ára samgönguáætlun.

Þessi veggjöld eru alvöruforgangsröðunin vegna þess að það er verið að flýta framkvæmdunum með þessum lágu gjöldum í samhengi við háan aksturskostnað. Það er verið að flýta þessum framkvæmdum í þágu allra og í þágu öryggis og forgangsröðunar um 5–10 ár. Ég tel að sú flýting sem ég tönnlast á sé höfuðmálið í þessari umræðu. Þetta er vissulega umdeild leið en hún er sú skásta.

Mig langar að lokum aðeins að minnast á borgarlínuna vegna þess að hér gengur sú gamla mantra að menn hefðu viljað sjá borgarlínuna fullfjármagnaða í samgönguáætlun. Hvernig í ósköpunum á það að vera hægt þegar þeir sem talast þar við, ríki og borg, hafa ekki lokið sínum samningaviðræðum? Það sem stendur í álitinu er ósköp klárt, það eru tvisvar sinnum 800 milljónir, helmingurinn frá borginni, helmingurinn frá ríkinu, sem fara í undirbúning. Síðan eru það 2,75 milljónir á hvorn aðila sem eiga að fara í fyrsta áfanga. Hvaðan koma þeir peningar? Það á eftir að ganga frá því í þessum sömu viðræðum. Hvernig á svo að klára þau ár sem eftir eru? Sumir segja að þetta sé 90, aðrir segja 100, sumir segja 110 milljarða framkvæmd, en hún er bráðnauðsynleg. Allir hér inni eru sammála um að fara þurfi í þær framkvæmdir og greiða úr og bæta umferðarflæði í þessari ágætu borg okkar, ég tala nú ekki um loftgæðin. Hið sama gildir um almenningssamgöngur úti á landi.

Það er rangt að ekki sé opnað á að gengið sé frá þeim til langs tíma í þessu áliti. Það er minnst á að búið sé að koma þeim í ágætishorf fyrir árið 2019. Það er líka gengið út frá því sem vísu að flug verði hluti af almenningssamgöngum með ótal umbótum.

Þegar ég hef fylgst með þessum umræðum er ég mjög sannfærður um að meiri hlutinn er á réttri leið með samgönguáætlun og þessa opnun á veggjöld sem á eftir að útfæra betur.