149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:43]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Er furða þó að maður sé algjörlega ringlaður og viti ekki hvort maður er að koma eða fara í þessu háa Alþingi? Annars vegar eru það Vinstri grænir á 20 ára afmælinu sínu sem eru að fara að leggja auknar álögur á alþýðuna í landinu með vegasköttum. Hins vegar er það Sjálfstæðisflokkurinn sem boðar það í kosningum eftir kosningar að hann sé að berjast gegn auknum álögum skatta og vilji lækka skatta. Nú hafa Sjálfstæðismenn samt sem áður samþykkt hækkun kolefnisgjalds svo um munar.

Hv. þm. Jón Gunnarsson sagði áðan að hér ætti að gæta jöfnuðar. Enn á ný á að merkja aldraða og öryrkja og gefa þeim afslátt af einhverju sem þeir hafa nú þegar ekki efni á að greiða. Það skiptir engu máli, hv. þm. Jón Gunnarsson, hvort heldur við erum að tala um 10 kr. eða 200 kr. eða 20 kr. fyrir þann sem hefur ekki salt í grautinn og nær ekki endum saman. Þetta er skattlagning og aftur skattlagning í boði núverandi ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Það er ekki flóknara en það og Flokkur fólksins mun aldrei samþykkja þvílíka svívirðu gagnvart alþýðu þessa lands.