149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

367. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég vil spyrja hæstv. dómsmálaráðherra að því hvers vegna þingsályktun, sem samþykkt var í september 2016 af fulltrúum allra flokka á þingi, um að fullgilda valkvæðan viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, hafi ekki verið framfylgt fyrir árslok 2017. Einnig spyr ég hverju þær tafir sæti, en núna er rúmt ár síðan að það átti að vera búið að fullgilda valkvæða viðaukann. Hvenær má búast við því að þingsályktuninni verði framfylgt af hálfu ráðuneytisins? Mætti kannski flýta ferlinu með því að utanríkisráðuneytið tæki málið að sér?

Alþingi ályktaði á árinu 2016 um að valkvæður viðauki við samninginn skyldi fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi þess, og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg og kerfisbundin brot gegn samningnum með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Núna erum við búin að fullgilda meginsamninginn.

Við undirrituðum þennan valfrjálsa viðauka á sínum tíma árið 2007. Við vorum gagnrýnd mjög lengi fyrir að hafa ekki fullgilt hann, en það var síðan gert 2016, eins og ég sagði áðan.

Valfrjálsa bókunin mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust, eins og dæmi sýna því miður, nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt samkvæmt samningnum. Með þessu er verið að styrkja réttarstöðu þeirra og draga fram þær kæruleiðir sem eru mögulegar.

Eftirlitsnefndin getur síðan óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum. Réttaröryggi fatlaðs fólks verður þá um leið meira og mannréttindi þess verða betur varin. Þess ber að geta að um 90 lönd hafa nú þegar fullgilt viðaukann og við viljum að sjálfsögðu vera í hópi þeirra.

Ég sé ekki neina ógnun sem ætti að fylgja því að framfylgja samhljóða ályktun þingsins frá 2016. Mér leikur hugur á að vita hver afstaða ráðherra er til þess að að fullgilda eða koma með tillögu hingað til okkar um að fullgilda sem fyrst valkvæða viðauka samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.