149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

valkvæður viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

367. mál
[16:59]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Mig langar að nýta tækifærið og spyrja ráðherra út í þingmál Samfylkingarinnar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í því máli er einmitt kallað eftir fullgildingu á þeim viðauka sem er til umfjöllunar og lögfestingin væri því heillaskref. Þingheimur tók vel í þessa þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar og þingmenn velferðarnefndar sömuleiðis sem og umsagnaraðilar. Málið er tilbúið til afgreiðslu.

Með leyfi frú forseta:

Geðhjálp hvetur Alþingi Íslendinga til að samþykkja þingsályktunartillöguna og leggja þar með sitt lóð á vogarskálarnar til mannréttindabaráttu fólks með geðfötlun og aðra fötlun.

Öryrkjabandalag Íslands fagnar innilega framkominni tillögu og undirstrikar mikilvægi þess að hún verði samþykkt. Verði tillagan ekki samþykkt eru skýr rök fyrir því að með slíku aðgerðaleysi væri löggjafinn enn og aftur að neita fötluðu fólki um að njóta sjálfsagðra réttinda til jafns við aðra.

Umboðsmaður barna fagnar tillögunni og telur að lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks muni styrkja stöðu fatlaðra barna hér á landi.

Hæstv. ráðherra. Er eftir nokkru að bíða?