149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:42]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um yfirstandandi endurskoðun á stjórnarskránni. Eins og fram hefur komið er samstaða um að halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrár í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og samráði við almenning. Mín tilfinning er sú að þó að stór hluti almennings hafi mikinn áhuga á endurskoðun stjórnarskrárinnar sé það enn stærri hluti sem veltir því lítið fyrir sér og kemur því lítið að umræðunni. Er það kannski stóra áskorunin í þessari vinnu að tryggja að þeir sem lítið heyrist í dagsdaglega um þetta málefni komi skoðunum sínum líka á framfæri? Hvernig getum við tryggt að samráðið við almenning skili sjónarmiðum allra, bæði þeirra sem telja mikilla breytinga þörf og hinna sem telja lítilla breytinga þörf? Kannski er rökræðukönnun leiðin. Ég held að það sé mikilvægt að prófa þá aðferðafræði. Þó að samráðsgáttin sé mikilvæg og mikilvægt sé að kalla eftir umsögnum um tiltekin viðfangsefni náum við þar fyrst og fremst til þeirra sem hafa mestan áhuga.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson fór hér ágætlega yfir stefnu Framsóknarflokksins, sem má lesa út úr stefnu og ályktunum flokksþinga. Þar hefur verið lýst yfir stuðningi við núgildandi stjórnarskrá en jafnframt stuðningi við endurskoðun, verk sem yrði unnið í hæfilegum áföngum.