149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:49]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (U):

Herra forseti. Ég verð samt sem áður að þakka málshefjanda, hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni, fyrir að vekja máls á þessu. Ég tel nauðsynlegt að við þingmenn fáum að tjá okkur um þetta í þingsal.

Með því að hlusta á þá hv. þingmenn sem hafa tekið til máls í umræðunni má heyra hversu misjafnlega þeir sjá breytingar á stjórnarskránni fyrir sér. Greinilegt er að á þingi eru mjög skiptar skoðanir um hversu hratt eigi að ganga fram í þeim efnum. Það liggur ljóst fyrir að mjög misjafnt er hvernig þingmenn horfa til þess að leggja eigi fram veigamiklar breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins. Ég er talsmaður þess að fara hægt í sakirnar í þeim efnum. Stjórnarskráin hefur að geyma grundvallarlög þjóðarinnar, grunn lýðveldisins og þann grundvöll ber að umgangast með mikilli varúð.

Stjórnarskrá lýðveldisins á þó ekki að vera dautt plagg og ég er hlynntur mörgu því sem nefnt hefur verið en aðhyllist hægfara breytingar á henni. Stjórnarskráin hefur í raun reynst okkur ágætlega. Ákvæði sem margir töldu lítils virði, sökum notkunarleysis, lifnaði við og þjónaði tilgangi sínum frábærlega þegar fimmti forseti lýðveldisins virkjaði það eftirminnilega í tengslum við Icesave-samningana.

Stjórnarskráin á auðvitað að geyma grundvallarreglur um þjóðfélagsskipanina, hún á að vera knöpp og gagnorð en ekki uppfull af orðskrúði um háfleygar pólitískar væntingar eða tilfinningalegt kám einstakra stjórnmálastefna. Ég er hlynntur því og tel afar brýnt að breytingar á stjórnarskránni séu gerðar í fullri sátt við öll helstu stjórnmálasamtök í landinu.