149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:45]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég er sammála því sem hefur komið fram um að frjáls viðskipti á milli ríkja geti verið lykill að góðum samskiptum, skilningi milli ólíkra þjóða og jafnvel friði í heiminum. Nú tók ég ekki þátt í störfum nefndarinnar við umræðu og umfjöllun um málið en af því að þetta er endurnýjun á samningi frá árinu 1992, þegar ástandið í Tyrklandi var allt annað en það er í dag, tel ég enga þörf á því að vera að endurnýja þennan samning.

Tyrkland er ekki lengur flokkað sem lýðræðisríki á meðal fræðimanna í stjórnmálafræði heldur einræðisríki. Erdogan hefur verið að breyta stjórnarskránni, hefur aukið völd sín en minnkað ábyrgð. Löggjafanum er ekki lengur leyft að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu, hann lagði niður embætti forsætisráðherra en gegnir nú báðum stöðum sem forseti. Hann hefur fangelsað blaðamenn, fræðimenn, stjórnmálamenn, andófsmenn og internetbloggara ásamt fleirum. Hann hefur verið svo iðinn við að fangelsa saklausa borgara að stærsti iðnaður Tyrklands í dag er bygging nýrra fangelsa vítt og breitt um landið, bara til að koma öllu þessu fólki fyrir.

Hann ofsækir Kúrda. Hann beitir saklausa borgara ofbeldi; 22 friðsamir mótmælendur voru drepnir árið 2013. Hann er bendlaðir við spillingu og fjármálamisferli. Hann lokar reglulega aðgangi að internetinu fyrir Tyrki. Hann lokar aðgangi að Wikipediu, YouTube, Facebook, Twitter og fleiri vefsvæðum.

Það er ekki hægt að semja við einræðisherra. Þessar klásúlur til málamynda um mannréttindi í samningnum eru til skammar. Mér finnst það lögleysa að vera með klásúlur inni í samningum sem er bara gefið að ekki standi til að fara eftir.

Ég ætla að lesa upp úr nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„Þá kemur fram í greinargerðinni að ákvæðum um mannréttindi, sjálfbæra þróun og umhverfismál sé bætt við fríverslunarsamninginn við Tyrkland.“ — Og þetta á sem sagt að vera þessi mikla bót. „Það sé í samræmi við utanríkisstefnu EFTA-ríkjanna að fullgilda viðskiptasamninga við ríki þrátt fyrir að samningsaðilar séu ósammála í ýmsum öðrum málum, eins og m.a. á sviði mannréttindamála. Framkvæmdin hefur verið hin sama í hinum EFTA-ríkjunum, þ.e. að gagnrýni á stöðu mannréttindamála hefur hingað til ekki komið í veg fyrir að fríverslunarsamningar séu gerðir og fullgiltir. Litið er svo á að almennt verði gagnrýni vegna stöðu mannréttindamála haldið uppi á vettvangi stofnana Sameinuðu þjóðanna fremur en á vettvangi EFTA.“

Hér stendur það svart á hvítu og í samningnum sjálfum og í gögnum frá EFTA að það sé ekkert að marka þessi nýju ákvæði, sem eiga að vera til mikilla bóta, og það eigi ekki að fara eftir þeim. Til hvers þá að hafa þau í samningnum? Ég veit ekki hvort það á að vera eitthvert PR-atriði fyrir almenning í þessum löndum sem verður neyddur til að taka þátt í fríverslunarsamningum við einræðisherra.

Við eigum að hafa kjark til að beita okkur á vettvangi EFTA og hafna þessum fríverslunarsamningi. Ísland á að stunda sjálfstæða utanríkisstefnu. Ég man aðeins eftir tveimur skiptum þar sem Ísland hefur stundað sjálfstæða utanríkisstefnu. Í fyrra skiptið var það þegar við viðurkenndum sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og í seinna skiptið þegar við viðurkenndum Palestínu. Annars fylgjum við bara eins og rollur þessu alþjóðasamstarfi sem við erum í, hvort sem það er EFTA eða Sameinuðu þjóðirnar.

Ég veit að ESB ætlar ekki að hleypa Tyrklandi í Evrópusambandið vegna ástandsins sem þar ríkir. Þetta er ekki lýðræðisríki, þetta er einræðisríki. Þess vegna fær það ekki inngöngu í Evrópusambandið. Af hverju ætlum við þá að fara að gera fríverslunarsamning við þetta ríki, við þennan einræðisherra?