149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

innheimtulög.

498. mál
[16:46]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á innheimtulögum, nr. 95/2008, með síðari breytingum, um brottfall tilvísunar, frá allsherjar- og menntamálanefnd.

Í 4. gr. innheimtulaga, nr. 95/2008, er fjallað um veitingu innheimtuleyfis. Innheimtuleyfi hefur verið veitt á grundvelli umsóknar frá einstaklingi sem samkvæmt b-lið 1. mgr. hefur óflekkað mannorð svo sem áskilið er til kjörgengis við kosningar til Alþingis, samanber 5. gr. laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis.

Við samþykkt laga um breytingu á ýmsum lögum vegna afnáms ákvæða um uppreist æru, nr. 141/2018, láðist að fella brott tilvísun til 5. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, í b-lið 1. mgr. 4. gr. innheimtulaga. Með lögunum var gerð sú breyting á umræddu ákvæði innheimtulaga að hæfisskilyrðið „gott orðspor“ kom í stað „óflekkaðs mannorðs“. En eftir stóð tilvísun til 5. gr. laga um kosningar til Alþingis. Þar er hins vegar að finna skilgreiningu á óflekkuðu mannorði. Nauðsynlegt er að bregðast við þessum annmarka og er því lagt til með frumvarpi þessu að fella brott tilvísun í 5. gr. laga um kosningar til Alþingis enda á hún ekki lengur við.