149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:19]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka flutningsmönnum fyrir að leggja fram þetta ágæta og áhugaverða mál. Við sem til þekkjum vitum að flug er erfitt víðast hvar á Vestfjörðum og við vitum líka að staðsetningar flugvalla í dag voru allar valdar út frá forsendum þess tíma þegar flugvellirnir voru lagðir. Þess vegna er full ástæða til að endurmeta hvort megi finna betri staðsetningar fyrir flugvellina þannig að hægt sé að nota flugsamgöngur a.m.k. að einhverju leyti sem almenningssamgöngur á því svæði, ekki aðeins með tilliti til innanlandsflugs heldur jafnvel, eins og hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á, með tilliti til millilandaflugs.

Ég held þó að fremur ólíklegt sé að það verði, alla vega ekki í náinni framtíð, einhver lykilstærð í samgöngum til Vestfjarða. Hins vegar held ég, eins og kemur m.a. fram í greinargerð flutningsmanna, að með því að búa til þannig aðstæður að hægt sé að fljúga á 70–100 manna vélum vestur megi sjá fyrir sér að hægt væri að fara með stóra hópa héðan af höfuðborgarsvæðinu í dagsferðir vestur til þess að nýta það fallega svæði í ferðaþjónustu í meira mæli en nú er gert.

Það hefur aðeins verið rætt um þá þrjá punkta sem flutningsmenn nefna í greinargerðinni, þ.e. innanvert Ísafjarðardjúp, Skutulsfjörð og Dýrafjörð. Af þeim er augljóst, alla vega í huga heimamanna, að menn myndu skoða Ísafjörð eða Skutulsfjörð fyrst, eða mest.

En ég held að punktmælingar á hinum stöðunum geti líka gefið mikilsverðar upplýsingar um veðurfar og vindafar á svæðinu sem geta skipt máli til að mynda með tilliti til varaflugvall, sem við þurfum alltaf að huga að.

Hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir kom inn á sjúkraflugið í því sambandi og mikilvægi flugsamgangna með tilliti til heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum. Hafandi verið sjálfur í þeirri stöðu í gegnum tíðina að þurfa bæði að taka ákvarðanir um og fara í sjúkraflug á þeim stöðum hef ég orðið býsna góðan skilning á því hversu mikilvægt er að hægt sé að treysta því að hægt sé að fljúga, þess vegna í daglegu starfi í heilbrigðisþjónustu fyrir vestan, að hægt sé að koma skjólstæðingum sínum frá sér, að hægt sé að treysta því að þegar maður greinir vandamál að morgni verði hægt að koma sjúklingunum til þess staðar þar sem þeir geta fengið viðeigandi þjónustu innan nokkurra klukkutíma.

Þetta myndi bæta mjög mikið og sennilega myndi tíðni sjúkraflugs minnka ef það væri öruggur lendingarstaður einhvers staðar annars staðar en nú er, þ.e. þá væri í fleiri tilvikum hægt að taka ákvörðun um að senda sjúkling áður en hann væri kominn í bráðaástand. Þess vegna væri hægt að nota áætlunarflugið meira í þeim tilgangi en gert er í dag.

Ég held að tillagan sé allra góðra gjalda verð og mjög áhugavert innlegg í umræðuna um flug og heilbrigðisþjónustu og ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Ég hlakka til að fylgjast með afdrifum hennar í meðförum þingsins.