149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[16:35]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum. Hún kemur ágætlega inn í þá miklu umræðu sem á sér stað núna og ég varð vör við í liðinni kjördæmaviku. Þar brunnu samgöngumálin mest á fólki.

Samgöngurnar eru, eins og ég hef svo margoft sagt, grunnur að velferð í samfélaginu. Þær eru grunnurinn að því að við getum byggt upp sterkt og öflugt samfélag. Ef samgöngur eru ekki í lagi þýðir lítið að vera að tala um eitthvað annað, sterkt heilbrigðiskerfi, menntakerfi o.s.frv. eða að stækka atvinnusvæði. Tillagan er ágætisliður inn í þetta.

Að tillögunni standa hv. þingmenn Guðjón S. Brjánsson, Haraldur Benediktsson og Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmenn Norðvesturkjördæmis, og finnst mér hún hið prýðilegasta framtak hjá þeim. Þau fara ágætlega yfir stöðuna og lagt er til að í staðarvalskönnuninni verði tekið mið af vaxandi ferðamannastraumi, auknum matvælaframleiðsluiðnaði og þörf fyrir flutning aðfanga og afurða, bæði innan lands og utan. Í könnuninni munu felast langtímaveðurfarsmælingar og mat á náttúrulegum aðstæðum.

Þá benda flutningsmenn á að hagkvæmni staðsetningar verði metin með þarfir fjórðungsins í huga þegar jarðgöng og vegaframkvæmdir hafa náð að skapa forsendur fyrir norður- og suðurhluta Vestfjarða sem eitt atvinnu- og búsetusvæði. Gríðarlega mikilvægt er að við horfum á málið út frá því sjónarhorni og get ég tekið undir það með flutningsmönnum að við séum að efla atvinnu- og búsetusvæði til að styrkja byggð um allt land og þá þurfi að hafa tengingar góðar á milli svæðanna.

Í greinargerðinni er tekið fram að tillagan sé lögð fram í því skyni að ýta undir það að bæta flugsamgöngur á Vestfjörðum. Það eru nokkrir flugvellir á Vestfjörðum. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi sem formaður samgönguráðs að fara um allt land, skoða flugvelli og samgöngumannvirki og eiga samtal og samráð við forsvarsmenn sveitarfélaga og landshlutasamtaka og ýmissa stofnana. Við fórum um Vestfirði líkt og önnur svæði. Lukkan var með okkur, við fórum á gríðarlega fallegum degi, það var bjart og fallegt og gott veður, sem er ekki alltaf raunin á okkar góða landi. Eins og Vestfirðir eru fallegir í góðu veðri og birtu ganga oft yfir dimm él og miklir vindar og eflaust flókið að setja niður flugvelli. Ekki kann ég það.

Farið er ágætlega yfir hvernig flugvellirnir eru og hvernig háttaði til með uppbyggingu þeirra. Segir að þrír stærri flugvellirnir hafi verið gerðir við helstu þéttbýliskjarnana, þ.e. Ísafjörð, Þingeyri og Patreksfjörð, og að þar hafi staðarvalið ráðist af landfræðilegum aðstæðum og getu til framkvæmda og jarðvinnslu á þeim tíma þegar farið var í framkvæmdirnar. Þannig æxlast hlutirnir stundum hjá okkur.

Það var lítið hægt að taka tillit til þátta eins og veðurs og vinda og blindaðflugs, enda eru blindaðflugin öll frekar frumstæð á Vestfjörðum, líkt og kemur fram. Það er oft ófært vegna misvinda, eins og segir sig sjálft, af háu fjöllunum og þröngu dölunum og fjörðunum.

Þó hefur ýmislegt breyst á undanförnum árum og áratugum og sem betur fer erum við að stíga skref fram á við. Það sem hefur gerst í tíð þeirrar ríkisstjórnar sem nú er við völd er að gríðarlega miklu hefur verið bætt í samgöngur og einnig er sérstök áhersla á Vestfirði í samgönguáætlun sem var samþykkt í þarsíðustu viku. Vestfirðir fengu ákveðinn forgang og þangað fara um 35 milljarðar í samgöngubætur.

Ég held að allir séu sammála um allt land um að gríðarlega aðkallandi sé að bæta ástandið þar og samgöngur allar.

Í greinargerðinni er farið yfir hvernig flugvellirnir eru sem eru í boði núna og eru notaðir. Þar er víðast hvar þröngt og erfitt að lenda vegna fjalla, veðurs og aðstæðna og oft er ófært, eins og ég kom að áðan og hv. þingmenn hafa farið yfir á undan mér. Þess vegna velti ég fyrir mér, og tek fram að ég er ekki sérfræðingur í flugi: Er þetta raunhæfur kostur? Er raunhæft að ætla að setja niður fleiri flugvelli? Væri raunhæfara ef við ætlum að tryggja samgöngur og auka fjölda ferða að leggja meiri áherslu á og setja meiri þunga í að laga vegina hraðar? Eigum við að bora göt í gegnum fleiri fjöll? Já, ég held að við eigum að gera það.

Ég er ekki þar með að segja að við eigum ekki að leggja áherslu á flugið. Flugið er okkur ákaflega mikilvægt að svo mörgu leyti. Við vitum það sem búum á afskekktum stöðum og langt frá höfuðstöðvunum þar sem mesta þjónustan er, flókna heilbrigðisþjónustan, að gríðarlega mikilvægt er að geta notað sjúkraflug. Það hefur bjargað mörgum.

Mér leist ágætlega á það sem hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson, 11. þm. Suðvest., talað um áðan, að ef ferðir yrðu tíðari myndi létta á flutningum í sjúkraflugi. Mér finnst rökrétt að draga þá ályktun að ef ferðir eru tíðari sé jafnvel hægt fyrr og í tíma að grípa inn í og senda fólk með almennu flugi í flóknari aðgerðir eða til annarrar umsýslu og umönnunar en er í boði í héraði.

Við verðum samt að horfa á það að við séum að nýta flugið og flugvellina. Vegna þess að við settum minna í samgöngurnar á tímabili, af ástæðum sem við þekkjum öll, hafa lendingarstaðir einn af öðrum dottið út, af því að þeir hafa ekki fengið eðlilegt viðhald og umhirðu eins og gengur. Þeir hafa ekki staðist öryggiskröfur og þess vegna dottið út af skrá. Þetta finnst mér umhugsunarefni inn í framtíðina. Ég held að ekki sé tímabært að hugsa um það en vil samt að við höldum því til haga. Það er mjög mikilvægt að við höfum sem flesta lendingarstaði á landinu.

Það kemur t.d. inn á ferðaþjónustuna. Þá er hægt að ferðast með minni hópa á minni vélum eða hvernig sem verkast vill. Hægt er að fara í dagsferðir fljúgandi til Vestfjarða og svo til baka þess vegna. Það er fullt af möguleikum í boði sem við þurfum að vera opin fyrir.

En það er mjög aðkallandi að við höfum öryggisþáttinn yfir og allt um kring og ávallt efstan, líkt og er í nýsamþykktri samgönguáætlun. Við þurfum að hafa hann efstan og fremstan á blaði þegar við ræðum samgöngur. Það er mjög aðkallandi að auka öryggi íbúa Vestfjarða og ef þetta er leiðin til þess er ég meira en tilbúin að styðja þá tillögu.

Mér finnst það skynsamlegt sem stendur í tillögunni, með leyfi forseta:

„Í ljósi reynslunnar og íslenskrar flugsögu er tæpast skynsamlegt að veita fé til framkvæmda nema hægt sé að uppfylla nútímakröfur um aðflugs- og fráflugsferla, auk krafna um öryggissvæði og hindranafleti. Við val á staðsetningu flugvallar þarf alltaf að gera ráð fyrir slíku. Flugsamgöngum við Vestfirði hefur í áranna rás verið sinnt við erfið skilyrði. Aðstæður fyrir hefðbundinn millilandaflugvöll sem uppfyllir allar kröfur um viðbúnað kunna að vera erfiðar á Vestfjörðum vegna fjalllendis og því er lagt til að aðstæður verði kannaðar vandlega og valkostum stillt upp í þeim efnum.“

Þetta finnst mér ákaflega skynsamleg nálgun, að kanna hlutina áður en farið er lengra. Í rauninni ættum við alltaf að vera í slíku ferli og erum það að einhverju leyti. Við erum að kanna mögulegar framkvæmdir inn í framtíðina og hvernig við ætlum að gera það.

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að breyta fyrirkomulagi á rekstri flugvallanna, að millilandaflugvellirnir verði allir undir hatti Isavia; með Keflavíkurflugvelli verði Akureyri, Reykjavík og Egilsstaðir. Rekstrarforminu verði breytt og þá verði meiri fjármunir sem við getum komið inn í það.

Mér finnst þessi tillaga allrar athygli verð og mun fylgjast spennt með framgangi hennar í þinginu og í ferlinu hér í gegn.