149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[17:39]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um muninn á hugmyndinni í því frumvarpi sem hann leggur fram og t.d. staðgöngumæðrun. Hvernig sér hann muninn í þessu? Þarna er væntanlega um að ræða konur í mjög viðkvæmri stöðu og erfiðum félagslegum aðstæðum sem vilja gefa barnið sitt — hv. þingmaður talar um að það sé stórkostleg gjöf að gefa barn. Gjöfin er þarna mikilvægasta orðið og ég spyr: Hvers konar hvata er verið að skapa, hvata fyrir konur sem eru jafnvel í mjög erfiðri stöðu (Forseti hringir.) og þurfa að taka mjög erfiðar ákvarðanir þegar það er verið að bjóða pening fyrir það, þegar verið er að blanda peningum inn í það að gefa frá sér barnið? Er þetta ekki líkt staðgöngumæðrun? Ef ekki væri ég til í að heyra hv. þingmann lýsa því hver munurinn er í hans huga.