149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fordæming viðbragða stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu.

395. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Álfheiður Eymarsdóttir) (P):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um að fordæma viðbrögð stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu, þar á meðal handtökur á katalónskum stjórnmálamönnum.

Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til þess að fordæma viðbrögð stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu sem fór fram í Katalóníu 1. október 2017 um sjálfstæði héraðsins.

Hinn 6. september 2017 samþykkti héraðsþing Katalóníu löggjöf sem heimilaði atkvæðagreiðslu um sjálfstæðisyfirlýsingu Katalóníu gagnvart Spáni, en Katalónía er sjálfsstjórnarhérað með sitt eigið þing. Stjórnlagadómstóll Spánar ógilti löggjöfina 7. september. Atkvæðagreiðslan fór engu að síður fram 1. október 2017, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir spænskra stjórnvalda, oft ofbeldisfullar, til að koma í veg fyrir framkvæmd hennar. Niðurstaðan varð þó skýr því að 92,01% þeirra sem greiddu atkvæði sögðu já við spurningunni sem lögð var fyrir kjósendur: „Vilt þú að Katalónía verði sjálfstætt ríki með lýðveldisstjórnarfari?“ Stjórnlagadómstóll Spánar ógilti sjálfstæðisyfirlýsingu héraðsstjórnarinnar 8. nóvember 2017 á grundvelli þess að hún hefði brotið gegn stjórnarskrá landsins og væri því marklaus.

Frá því að atkvæðagreiðslan fór fram hafa verið gefnar út handtökuskipanir á hendur fjölmörgum stjórnmálamönnum í Katalóníu og hafa a.m.k. níu þeirra setið í fangelsi á Spáni mánuðum saman án þess að þeir hafi verið ákærðir. Meðal þeirra er fyrrverandi forseti katalónska þingsins. Enn fleiri eru í útlegð og eiga á hættu að verða handteknir ef þeir snúa til síns heima.

Ég ætla að telja hérna upp þetta fólk, þetta mæta katalónska stjórnmálafólk.

Oriol Junqueras, varaforseti og efnahagsmálaráðherra, hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í nóvember 2017.

Jordi Turull, talsmaður forsetans, hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í mars 2018.

Joaquim Forn innanríkisráðherra hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í nóvember 2017.

Raül Romeva utanríkisráðherra hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í nóvember 2017.

Dolors Bassa, atvinnumála- og velferðarráðherra, hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í nóvember 2017.

Josep Rull sjálfbærnismálaráðherra hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í nóvember 2017.

Meritxell Borràs stjórnsýsluráðherra hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í nóvember 2017.

Carles Mundó dómsmálaráðherra hefur setið í varðhaldi án ákæru síðan í nóvember 2017.

Santi Vila nýsköpunarmálaráðherra sat í varðhaldi án ákæru í níu mánuði en er nú laus gegn tryggingu.

Carles Puigdemont, forseti Katalóníu, er í útlegð til að komast hjá handtöku og ákærum.

Antoni Comín heilbrigðismálaráðherra er í útlegð til að komast hjá handtöku og ákærum.

Clara Ponsatí menntamálaráðherra er í útlegð til að komast hjá handtöku og ákæru.

Meritxell Serret landbúnaðarráðherra er í útlegð til að komast hjá handtöku og ákæru.

Lluís Puig menningarmálaráðherra er í útlegð til að komast hjá handtöku og ákærum.

Þetta eru bara stjórnmálamenn á katalónska þinginu. Ótaldir eru leiðtogar félagasamtaka og aðgerðahópa sem hafa verið hnepptir í varðhald, ákærðir eða eru í útlegð.

Ímyndum okkur nú að við værum enn undir stjórn Dana og að núverandi hæstv. ráðherrar Íslands hefðu lagt til sjálfstæði Íslands frá Dönum. Þá væru hæstv. ráðherrar; fjármála- og efnahagsráðherra, Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson og dómsmálaráðherra Sigríður Á. Andersen í fangelsi. Hæstv. heilbrigðismálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, og forseti lýðveldisins, Guðni Th. Jóhannesson, gætu sem best verið í útlegð á meginlandi Evrópu.

Þetta er árás á stjórnmálamenn. Þetta er árás á lýðræðið. Þetta er árás á tjáningarfrelsið, hugmyndafrelsið og athafnafrelsi. Þetta eru pólitískir fangar, samviskufangar í evrópsku lýðræðisríki, samstarfsríki okkar.

Ég vil leggja sérstaka áherslu á og vil að það sé mjög skýrt að þingsályktunartillaga þessi er ekki stuðningsyfirlýsing við málstað sjálfstæðissinna í Katalóníu heldur alvarleg áminning til spænskra stjórnvalda um að tryggja rétt manna til að bjóða sig fram til starfa í þágu kjósenda án þess að eiga á hættu að verða sviptir frelsi.

Utanríkisráðherra Katalóníu, Alfred Bosch, er væntanlegur til Íslands í mars. Ég hvet utanríkisráðherra, utanríkismálanefnd og alla þingflokka og þingmenn utan flokka til að hitta hann að máli og fá lýsingar á ofbeldi spænskra yfirvalda frá fyrstu hendi.

Yfir 300.000 Katalónar marseruðu um götur Barcelona sl. laugardag til að mótmæla réttarhöldum yfir níu katalónskum stjórnmálamönnum og þremur fulltrúum félagasamtaka sem hófust 12. febrúar og í nóvember á síðasta ári mótmæltu um 350.000 Katalónar fangelsun og útlegð katalónskra stjórnmálamanna. Spænskir dómstólar saka þetta fólk um mótþróa og uppreisn gegn spænska ríkinu. Það á yfir höfði sér allt að 25 ára fangelsi. Flest hefur setið í varðhaldi núna í 12 mánuði án þess að vera ákært.

Þetta eru pólitískir fangar og augljóst að spænsk yfirvöld glæpavæða málfrelsi og skoðanafrelsi þegna sinna. Þetta verða réttarhöld yfir lýðræðinu, réttarhöld yfir skoðana- og tjáningarfrelsi. Stjórnmálamenn í Katalóníu hafa ekki rétt til að koma skoðunum sínum á framfæri og eru ákærðir fyrir það. Þó hefur verið bent á að samkvæmt spænsku stjórnarskránni er bannað að ákæra fyrir pólitískt andóf.

Spænskir dómstólar ætla að kalla til vitnis í málinu fyrrum forsætisráðherra Spánar en hafa hafnað Puigdemont, réttkjörnum forseta Katalóníu, sem vitni. Spænsk stjórnvöld hafa einnig neitað fulltrúum alþjóðlegra rannsókna-, eftirlits- og mannréttindastofnana að vera viðstaddir réttarhöldin.

Ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðið og SCE, sem er samvinna 57 ríkja um öryggi og samvinnu í Evrópu, Amnesty International, Human Rights Watch, samtök stjórnmálafræðinga á alheimsvísu og MCT, sem eru alþjóðleg samtök gegn pyndingum, ýmis mannréttindasamtök, samtök lögfræðinga og dómara hafa fordæmt þessar fordæmalausu aðgerðir spænskra yfirvalda.

Ég vil því hvetja þingheim til að sýna kollegum okkar í Katalóníu stuðning og samþykkja þessa þingsályktunartillögu.