149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fordæming viðbragða stjórnvalda á Spáni við atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu.

395. mál
[19:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Álfheiði Eymarsdóttur fyrir að vekja athygli á málstað Katalóníu og öðrum flutningsmönnum á þessari þingsályktunartillögu sem við ræðum hér sömuleiðis. Mig langar til að fjalla um réttarhöldin sem hv. þingmaður talaði um í ræðu sinni. Tillaga til þingsályktunar var lögð fram í nóvember sl. og síðan þá höfum við upplifað þessi réttarhöld sem hv. þingmaður fjallaði um í ræðu sinni.

Ég átti fund í Madríd í síðustu viku með katalónsku stjórnmálafólki, á meðal þeirra var Alfred Bosch, utanríkisráðherra Katalóníu. Þetta stjórnmálafólk var þar statt til að fylgjast með réttarhöldunum yfir 12 leiðtogum katalónsku sjálfstæðishreyfingarinnar, bæði forystufólki, frjálsum félagasamtökum og réttkjörnu stjórnmálafólki.

Tólfmenningarnir hafa nú þegar setið án dóms í fangelsi í 12–14 mánuði. Það má með sanni segja að fangelsun þeirra er ólíðandi. Réttarhöldin hófust í síðustu viku en málið má rekja til atkvæðagreiðslu um sjálfstæðisyfirlýsinguna haustið 2017 líkt og rakið er hér í greinargerðinni.

Til að gefa skýrari mynd af málinu er forseti katalónska þingsins meðal þeirra sem eru nú fyrir rétti og er hún ásökuð fyrir það eitt að hafa efnt til umræðu um málið á katalónska á þinginu. Líkt og hv. þingmaður benti á hér eru þar líka félagar frjálsra félagasamtaka sem eru í raun ásakaðir fyrir það eitt að hafa skoðun á sjálfstæðisbaráttunni.

Deilan snýst um það hvort þau hafi brotið gegn stjórnarskránni. Um það snýst málið en því miður bendir ansi margt til þess að nú þegar sé búið að ákveða að refsa þeim, bara spurning hvaða refsing verði fyrir valinu.

Það er líka verulegt umhugsunarefni að á meðal þeirra aðila sem sækja málið gegn sjálfstæðissinnum Katalóníu er hægri öfgaflokkurinn Vox sem vex því miður ásmegin í spænskum stjórnmálum og nýtir sér sjálfstæðisbaráttu Katalóna til hins ýtrasta í þeim tilgangi. Það er sá flokkur sem krefst þyngstu refsingarinnar gagnvart Oriol Junqueras, leiðtoga ECR-flokksins, en sú krafa hljóðar upp á 74 ár í fangelsi fyrir m.a. uppreisn og skipulagða glæpastarfsemi. Hinir ákærendurnir, ríkissaksóknari og ríkið sjálft, krefjast áratugalangra refsinga yfir sakborningnum.

Þessi krafa, herra forseti, er með ólíkindum, enda var það sannarlega dapurleg og áhrifamikil stund þegar ég sat með félögum í ECR, félögum í þingflokki Junqueras, þegar þeir horfðu á leiðtoga sinn á tjaldi, því að aðgangur að réttarhöldunum var ekki leyfður, halda sína fyrstu varnarræðu. Tár féllu og það var tilfinningarík stund fyrir hina kjörnu fulltrúa að horfa á áhrifaríka varnarræðu félaga síns og formanns.

Það er með ólíkindum að þetta eigi sér stað í Evrópu árið 2019 því að burt séð frá því hvaða skoðun við höfum á sjálfstæðisbaráttu Katalóníu er ljóst að þessi réttarhöld eru pólitísk og fangelsun stjórnmálafólks sem hefur barist með friðsamlegum hætti fyrir sinni sannfæringu og skoðunum er einfaldlega ólíðandi.

Pólitísk staða er flókin á Spáni. Við stöndum líka frammi fyrir því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í október 2017, um sjálfstæðisbaráttu Katalóníu, var ekki afgerandi. Um helmingur Katalóna er ekki á því að Katalónía eigi að vera sjálfstæð þannig að staðan á Spáni almennt er bæði viðkvæm og flókin. Pedro Sánchez forsætisráðherra boðaði í síðustu viku til kosninga eftir að þingið hafnaði fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnar Sósíalistaflokksins.

Katalónskir sjálfstæðissinnar á spænska þinginu höfðu fram að því stutt stjórnina en greiddu atkvæði gegn frumvarpinu þar sem Sánchez féllst ekki á kröfu þeirra um að mæta til áframhaldandi viðræðna um sjálfsákvörðunarrétt Katalóna.

Kosningarnar í apríl nk. verða því mikið álag á spænsk stjórnmál. Þá verða réttarhöldin væntanlega enn í gangi og að auki kosningar til Evrópuþingsins og til sveitarstjórna í nokkrum héruðum.

En það sem er flókið og verður enn flóknara fyrir Spán og Evrópu alla er að glíma við uppgang þjóðernishyggju og öfgahægri flokks sem elur á andúð gegn útlendingum, samkynhneigðu fólki og talar opinskátt gegn kvenréttindum. Þessi flokkur nýtir sér þessa sjálfstæðisbaráttu til framgangs sinna málefna. Það á ekki að vera flókið að tala og beita sér gegn uppgangi öfgahægri afla á Spáni, sér í lagi með sögu Franco-tímabilsins í huga, en það er það engu að síður fyrir spænskt stjórnmálafólk. Í þeirri baráttu verðum við öll að leggjast á árarnar og vera á sama báti og tala fyrir mannréttindum og lýðræði og tjáningarfrelsi.

Þess vegna langar mig líka til að segja frá því að sem þingmaður Evrópuráðsþingsins hef ég rætt málefni Katalóníu við aðra Evrópuráðsþingmenn. Þar eru þingmenn varfærnir, sérstaklega þingmenn Evrópusambandslanda, skiljanlega kannski, en að mínu mati verðum við að einblína á það og hafa í huga að þessi réttarhöld snúast ekki bara um stjórnarskrá Spánar, ekki um lagaflækjur varðandi sjálfstæðisbaráttu Katalóníu heldur um mannréttindi og um tjáningarfrelsið. Við verðum að standa vörð um það. Það er aldrei hægt að samþykkja að stjórnmálafólk sem hefur barist með friðsamlegum hætti fyrir sannfæringu sinni og skoðunum sé fangelsað, haft bak við lás og slá án dóms og laga í marga mánuði og eigi yfir höfði sér áratugalanga fangelsisrefsingu.

Því vil ég ítreka það sem ég sagði í upphafi: Ég fagna því að hv. þm. Álfheiður Eymarsdóttir vekur hér rækilega athygli á sjálfstæðisbaráttu Katalóna og viðbrögðum Spánar. Við, sem lýðræðisríki sem tekið er mark á í alþjóðasamstarfi á alþjóðavettvangi, eigum að styðja við mannréttindi, lýðræði, réttarríki og tjáningarfrelsi.