149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

innflutningur á hráu kjöti.

[13:54]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég er mjúkur, jú, gæti kannski verið heldur harðari. Vandamálið er að við erum að kljást við niðurstöðu dómstóla sem við þurfum að finna leið út úr. Mín afstaða er sú að við eigum að leita allra leiða til að geta varið sérstöðu okkar er varðar það sem ekki tókst í dómsmálinu.

Þegar hv. þingmaður spyr mig: Hefði verið hægt að gera eitthvað öðruvísi á tímabilinu 2013–2015 þegar ég var landbúnaðarráðherra? Þá hefði það verið hægt. Þegar maður lítur í baksýnisspegilinn hefði hugsanlega verið hægt að undirbúa málið enn betur. Við fórum hins vegar á þessum forsendum. Ég fór til Evrópusambandsins og talaði við yfirmenn þar og við vörðumst á þeim forsendum að við værum að verja þessa stöðu. Á það var hins vegar ekki hlustað fyrir dómstólum og það snerist bara um viðskipti á vöru yfir landamæri, frjálst flæði vöru.

Ég er ósammála því að þetta mál sé þannig vaxið. Við þurfum hins vegar að bregðast við hæstaréttardómnum. Það er óhjákvæmilegt og það þurfum við hér í þinginu að gera. Ráðherrann þarf að koma fram með eins öflugt mál og hægt er og við í þinginu að leggjast yfir það að gera það eins vel úr garði og hægt er. (Forseti hringir.)

Hitt verkefnið fer hins vegar ekki frá okkur (Forseti hringir.) hvernig við ætlum að verja þessa sérstöðu, eins og Nýja-Sjáland. Ég er til í að tala miklu lengur sem …

(Forseti (SJS): Það er ekki í boði.)

Hæstv. forseti mun ekki leyfa mér það við þessar aðstæður.