149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

lengd þingfundar.

[19:43]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það gleður forseta að tillaga hans vekur almenna hrifningu, [Hlátur í þingsal.] tillaga um að þingfundur geti staðið lengur í dag en þingsköp gera ráð fyrir, þ.e. ef þörf krefur. Mat forseta byggir á því að enn er alllöng mælendaskrá og greinilega þörf fyrir að ræða málið.

Forseti vill upplýsa, eins og a.m.k. þingflokksformönnum er kunnugt og væntanlega hafa þeir upplýst um það í sínum þingflokkum, að strax á mánudaginn fyrir rúmri viku var lögð upp sú áætlun að þetta mál nyti forgangs í dag og að stefnt væri að því að gera það að lögum í dag. Starfsáætlun þingsins var þannig að hér var ekki fundað í gær eins og kunnugt er. Málið kom út úr nefnd undir lok vikunnar sem leið og um það var ekki reistur ágreiningur á fundi forseta með formönnum þingflokka næstsíðastliðinn mánudag og reyndar ekki heldur á fundi forseta með formönnum þingflokka í morgun. Forseti hafði ekki ástæðu til að ætla annað en að ágætlega horfði með að sú áætlun sem hafði verið lögð upp og rækilega kynnt gæti gengið eftir.

Forseti tók jafnframt skýrt fram að ekki stæði til að takmarka umræður eða amast við því að menn ræddu málið eins og þeir teldu sig þurfa. Í því skyni sýnist forseta hyggilegt að hafa borð fyrir báru og geta jafnvel fundað eitthvað lengur en til miðnættis ef þörf krefur.