149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[20:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Forseti. Ástæðan fyrir því að ég rakti þetta allt saman í gegnum fréttatilkynningar Seðlabankans, og náði reyndar ekki alveg að klára, var til þess einmitt að sýna fram á hversu sérkennileg sagan er og lýsir margítrekuðu undanhaldi sem á sér stað á sama tíma og menn ganga mjög augljóslega hart fram við að verja hagsmuni sína, þ.e. vogunarsjóðirnir. Þeir voru ekki orðnir margir eftir. Ég held að það séu í meginatriðum fjórir vogunarsjóðir sem eigi megnið af því sem eftir stendur þarna. Þeir ráku mál sín auðvitað á ýmsan hátt, eins og menn þekkja, og keyptu ýmsa þjónustu til þess innan lands sem utan. Svoleiðis að við sjáum þarna alllanga sögu viðvarandi undanhalds sem færir okkur svo á þann punkt sem við erum komin á núna þar sem vilji ríkisstjórnarinnar, og að því er virðist flestra á Alþingi, stendur til þess að gefa endanlega eftir og lyfta höftum einhliða þannig að menn geti keypt evrur af Seðlabankanum á seðlabankagengi.

Um hvaða upphæðir er að ræða? Við erum búin að vera að velta því fyrir okkur. Ég ætla að birta mjög einfalda mynd til að reyna að svara í einhverju spurningum hv. þingmanns. Ef upphafsupphæðin var 319 milljarðar og þeir hefðu verið keyptir á genginu 190 hefði þurft að borga fyrir það 1,7 milljarða evra, hvorki meira né minna, ef mér skjátlast ekki. Ég ætla að fara betur yfir það á eftir. Ég var bara að rissa þetta hjá mér. Ef þetta væri keypt á gengi dagsins í dag, 2,3 milljarðar evra sem Seðlabankinn þarf að greiða, (Forseti hringir.) 1,7 milljarðar evra á 190 kr., 2,3 milljarðar evra á 138 kr. Þetta eru engar smáupphæðir og enginn smámunur.