149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir svarið. Þegar ég hlustaði á svar hv. þingmanns þá rifjaðist upp fyrir mér það sem ég sagði í ræðu minni áðan og las upp úr leiðaraskrifum blaðamannsins Harðar Ægissonar, sem skrifaði leiðara 3. mars, 2017, held ég að það hafi verið í Fréttablaðið. Hann greindi frá því að stjórnvöld yrðu að standa í lappirnar. Það væri pressa að breyta leikreglunum af hálfu eiganda þessara krónueigna, vogunarsjóðanna. Hann vitnaði m.a. í fund sem átti sér stað í New York.

Þetta var í mars 2017. Við sjáum hins vegar eftir að hafa farið í gegnum fréttir og tilkynningar að eftirgjöfin byrjaði vitanlega miklu fyrr. Hún byrjaði í júní 2016, einhverra hluta vegna, en náði kannski einhvers konar hámarki þegar menn fóru að þvælast til New York að semja við þessa aðila. Kann að vera.

Það sem vekur athygli mína og mig langar að vekja athygli hv. þingmanns á er að á bls. 6 í frumvarpinu er stuttur kafli sem heitir Samráð. Þar segir að við vinnslu frumvarpsins hafi verið haft samráð við forsætisráðuneytið og Seðlabanka Íslands.

Maður hefði einhvern veginn haldið í ljósi þess samráðs að einhver varúðarorð hefðu átt að koma frá Seðlabankanum strax þegar unnið var að frumvarpinu, þ.e. ef það var ekki unnið meira og minna í Seðlabankanum. Ég hef vitanlega ekki hugmynd um það. Svo sjáum við að í nefndarálitinu er vísað í umsögn Seðlabankans þar sem varað er við hinum skelfilegustu afleiðingum, verði frumvarpið ekki samþykkt.

Ég velti því fyrir mér þar af leiðandi hvað gerist þarna í millitíðinni hjá Seðlabankanum frá því að frumvarpið var samið og þeir áttu samráð við ráðuneytið, komu greinilega ekki með neinar athugasemdir inn í frumvarpið eða í það minnsta rötuðu þær ekki inn í frumvarpsgerðina. Hins vegar komu þeir með einhver, ekki dómsdagsspár, en varúðarorð í umsögn sinni um málið.

Spurningin er þessi: Er eitthvað sem gerist þarna í millitíðinni sem við áttum okkur ekki á og væri gott að fá svar við, frá því að frumvarpið var lagt fram og mælt fyrir því 22. júlí, þar til að nefndin gefur þetta nefndarálit út?