149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál.

486. mál
[21:57]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eiginlega óska eftir tíu mínútna andsvarstíma, þetta var nefnilega mjög áhugaverð spurning hjá hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Hvað í ósköpunum er að gerast hjá vinstri mönnum þessa heims? (Gripið fram í.)Ef við horfum í síðari tíma sögu hér heima fyrir byrjar þetta í tíð hinnar svokölluðu norrænu velferðarstjórnar sem Samfylkingin og Vinstri græn stóðu saman að. Þar virtust menn telja hrósið best sem kom frá hörðustu andstæðingum okkar. Það er auðvitað alveg ömurleg staða. Þá var ég í því í þeirri stöðu að vera að reyna að reka mitt fyrirtæki og ekki í neinu pólitísku vafstri. En það var alveg ömurlegt að fylgjast með því úr fjarska að mönnum þætti best að fá klappið frá andstæðingum sínum á bakið. Um leið og andstæðingarnir klappa þér allir sem mest og hrósa þér verður sá sem fyrir verður að hugsa: Bíddu nú við, er ég á réttri leið?

Ég held að enn eimi eftir af þessu. Margir af leikendum þess tíma eru enn í stjórnmálum og mætti eflaust segja að sumir hverjir ættu einhverra harma að hefna síðan þá. Það var mjög fast á þeim tekið af þáverandi stjórnarandstöðu sem var leidd af hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem þáverandi formanni Framsóknarflokksins, og hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktssyni, sem formanni Sjálfstæðisflokksins. Kannski eimir eitthvað eftir af því, að menn vilji mögulega ekki að niðurstaða stóra plansins, sem var keyrt af stað 2015, verði eins gríðarlega góð og í stefndi. Kannski hefur það áhrif, kannski er það eitt og annað.

Ég verð að koma í seinna andsvari af dýpri pælingum í þeim efnum en þetta er fyrsta atrenna.